Endurskoðun tollskrár fyrir landbúnaðarvörur lokið
Breytingar á tollskrá fyrir landbúnaðarvörur, með það að markmiði að gera skráningu og tollflokkun skýrari og aðgengilegri fyrir ýmis matvæli og aðrar landbúnaðarafurðir, er lokið og munu taka gildi 1. janúar nk. Með breytingunum fæst betri yfirsýn og nákvæmari upplýsingar yfir það hvaða vörur eru fluttar inn og út og þannig endurspegla betur raunveruleg utanríkisviðskipti. Breytingarnar eru gerðar í kjölfar samráðs við Neytendasamtökin, Samtök verslunar- og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Bændasamtök Íslands.
Tollskrárbreytingar eru unnar í samræmi við aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.
Skýrari tollskrá
Í tollskrá heyra yfir 2.000 tollskrárnúmer til landbúnaðarvara og spanna þau vítt svið. Kallað hefur verið eftir því að tollskráin sé skýrari og auðveldi þannig inn- og útflytjendum að lesa úr tollskrá þegar kemur að tollflokkun og tollskýrslugerð. Aðeins er um að ræða breytingar á tollskrárnúmerum og vörulýsingum en ekki tollum eða öðrum aðflutningsgjöldum. Um er að ræða sérstaklega þá vöruliði tollskrár sem eiga annars við um kjöt og hins vegar garðyrkjuafurðir, einkum plöntur og grænmeti.