Árangur Íslendinga afar góður í Horizon 2020
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, fundaði nýverið með Signe Ratso, varasviðsstjóra framkvæmdastjórnar ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar, í tengslum við kynningarfund um nýsköpunarstyrki Evrópusambandsins.
Á fundinum kom fram að árangur Íslendinga af umsóknum í evrópska samkeppnissjóði hefur verið mjög góður. Í Horizon 2020 er árangurhlutfall íslenskra umsækjenda um 20% í samanburði við 14% meðaltal allra þátttökuríkja. Tæpur helmingur styrkjanna hefur farið til fyrirtækja hér á landi sem er einnig hátt hlutfall þegar tekið er mið af öðrum þjóðum.
Í nýrri samstarfsáætlun, sem kynnt er undir nafninu Horizon Europe og gildir fyrir tímabilið 2021-2027, er ein mikilvægasta breytingin sú að umtalsvert meiri áhersla verður lögð á nýsköpun. Standa vonir til að árangur Íslendinga verði jafn góður undir Horizon Europe og í fyrri áætlunum.
Á fundinum með Signe Ratso gerði ráðherra einnig grein fyrir nýrri nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og þeim fimm stoðum sem hún byggir á: hugarfari, fjármagni, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauði. Ljóst er að mikil fjármögnunartækifæri eru fyrir íslenska frumkvöðla og rannsóknaraðila á vettvangi Evrópusambandsins og mikilvægt að halda þeim á lofti.