Afhenti trúnaðarbréf gagnvart Eþíópíu og Afríkusambandinu
Unnur Orradóttir Ramette afhenti í dag forseta Eþíópíu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur Kampala í Úganda. Síðdegis afhenti Unnur svo framkvæmdastjóra Afríkusambandsins trúnaðarbréf sitt.
Unnur Orradóttir Ramette sendiherra í Kampala afhenti frú Sahle-Work Zewde forseta Eþíópíu trúnaðarbréf sitt í dag við hátíðlega athöfn. Ræddu þær nýtingu jarðvarma í Eþíópíu með aðkomu íslenskra fyrirtækja, sem forsetanum var vel kunnugt um, jafnrétti kynjanna, friðarumleitanir stjórnvalda í Eþíópíu og leiðir til að auka samskipti ríkjanna.
Zewde er í dag eini kvenleiðtogi Afríku en hún átti að baki farsælan feril í utanríkisþjónustu landsins áður en þingið skipaði hana í embætti 25. október 2018, einungis viku eftir að forsætisráðherrann og friðarverðlaunahafinn Ahmed Abiy jafnaði kynjahlutfallið í ríkisstjórn landsins.
Embætti forseta Eþíópíu hefur fyrst og fremst táknrænt gildi en forsetinn leggur sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna og framlag kvenna í þágu friðar í starfi sínu.
Síðdegis afhenti svo Unnur, sem er jafnframt fastafulltrúi Íslands gagnvart Afríkusambandinu, Moussa Faki Mahamat, framkvæmdastjóra sambandsins trúnaðarbréf sitt.
Afríkusambandið var stofnað árið 2002 og reist á grunni Einingarsamtaka Afríku (1963-1999). Öll 55 ríki Afríku eru aðilar að sambandinu. Sambandið vinnur að friði, velferð, samstöðu og auknum samruna ríkjanna í álfunni.
Framkvæmdaáætlun sambandsins Agenda 2063: The Africa We Want felur í sér framtíðarsýn álfunnar og metnaðarfull flaggskipsverkefni t.d. gerð fríverslunarsamnings sem tók gildi 30. maí á þessu ári.
Sendiherrann ræddi áherslur Íslands í utanríkis- og þróunarmálum og hvað hefði áunnist undir hatti rammasamnings Íslands við Afríkusambandið frá 2013 á sviði jarðvarma. Hvatti framkvæmdastjórinn til víðtækari samskipta Íslands við ríki Afríku og Afríkusambandið.