Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir verkefni sem hefur það markmið að efla starf þriðja geirans og félagasamtaka hér á landi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra og ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, að veita fjórar milljónir króna til samstarfs um að efla starf þriðja geirans og félagasamtaka hér á landi. 

Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins felist í aðstoð og fjárstuðningi við söfnun upplýsinga vegna rannsóknar á umfangi þriðja geirans og frumkvöðlastarfs innan hans, þátttöku í málþingum og öðrum sameiginlegum viðburðum og fjárframlagi til endurútgáfu handbókar um stjórnun og rekstur félagasamtaka.

Ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, Almannaheill, samtök þriðja geirans, og Fræða- og þróunarsetur þriðja geirans við Háskóla Íslands, munu á næstu dögum undirrita viljayfirlýsingu um að vinna sameiginlega að eflingu félagslegs frumkvöðlastarfs og nýsköpunar. Viljayfirlýsingin er liður í starfi ríkisstjórnarinnar til eflingar á starfi félagasamtaka í samræmi við gildandi stjórnarsáttmála. Hún er einnig í samræmi við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland þar sem m.a. kemur fram þörf á hugvitsdrifinni nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins.

Samvinna aðila mun beinast að eftirfarandi verkefnum:

  • Tilraunastofa fyrir nemendur af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands með það að markmiði að finna nýjar félagslegar lausnir í velferðarmálum í samvinnu við félagasamtök og notendur.
  • Vinnustofur um aðferðir við félagslega nýsköpun. Þær verða ætlaðar þeim sem eru að undirbúa stofnun nýrra félaga en einnig rótgrónum félögum sem ráðgera að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni.
  • Stofnun upplýsingavefs sem er ætlaður íslenskum félagasamtökum og nýtist við daglega stjórnun en einnig við undirbúning og framkvæmd umbótaverkefna. Endurnýjun handbókar um stjórnun og rekstur félagasamtaka.
  • Rannsókn á umfangi þriðja geirans á Íslandi og frumkvöðlastarfs sem þar fer fram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta