Um skynsamlega notkun sýklalyfja
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur fyrir alþjóðlegri vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja sem hófst í dag. Tilgangurinn er að minna almenning, stjórnvöld og heilbrigðisstarfsmenn á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og jafnframt að minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. WHO og fleiri alþjóðlegar stofnanir hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógnin sem steðjar að mannkyninu. Þótt sýklalyfjaónæmi sé minna vandamál hér á landi en í mörgum öðrum löndum er engu að síður mikilvægt að hefta frekari útbreiðslu með markvissum aðgerðum. Fjallað er um málið í tilkynningu á vef embættis landlæknis.