Endurskoðun aflareglu fyrir þorsk
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað nefnd til að endurskoða aflareglu fyrir þorsk. Horft er til þess að aflareglan skili hámarksafla, uppfylli kröfur um varúðarsjónarmið auk þess sem að veiðar séu hagkvæmar og vistspor þeirra lágt.
Núverandi aflaregla hefur verið í gildi frá 2007. Hún felur í sér að veiðihlutfallið sé 20 prósent af viðmiðunarstofni, sem er fjögurra ára þorskur og eldri, að því tilskyldu að hrygningarstofninn sé metinn yfir gátmörkum, en til að draga úr sveiflum í afla vegur kvóti ársins á undan jafnt og 20 prósent veiðihlutfallið. Aflareglan var yfirfarin af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) 2009, endurskoðuð 2014-2015 og þá enn framlengd óbreytt til fimm ára.
Nefndin er skipuð átta fulltrúum, einum tilnefndum af Hafrannsóknastofnun, einum frá Háskólanum á Akureyri, einum frá Háskóla Íslands, einum frá Landssambandi smábátasjómanna, einum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, einum samkvæmt sameiginlegri tilnefningu samtaka sjómanna og loks tveimur starfsmönnum ráðuneytisins.
Nefndin er þannig skipuð:
Árni Bjarnason (Samtök sjómanna)
Edda Elísabet Magnúsdóttir (HÍ)
Guðmundur Þórðarson (Hafró)
Guðrún Arndís Jónsdóttir (HA)
Kristján Þórarinsson (SFS)
Örn Pálsson (LS)
Brynhildur Benediktsdóttir og Sigurgeir Þorgeirsson (formaður) án tilnefningar.