Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra við hátíðarhöld vegna 30 ára afmælis Barnasáttmála SÞ í New York

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, flutti ávörp fyrir hönd Norðurlandanna og Íslands. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók þátt í hátíðahöldum í tilefni af þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Hann flutti þar ávörp fyrir hönd Norðurlandanna og Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum á vegum UNICEF þar sem hlutverkum var snúið við. Börn voru í aðalhlutverki og hinir fullorðnu hlustuðu og spurðu börnin spurninga.

Nú stendur yfir umfangsmikil endurskoðun á þjónustu við börn á Íslandi sem leidd er af félagsmálaráðuneytinu. Í þeirri vinnu hefur ráðuneytið og félags- og barnamálaráðherra átt í góðri samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og fulltrúa þeirra. Ásmundur Einar fundaði með framkvæmdastjóra UNICEF, Henrietta Fore. Þau ræddu stöðu vinnunnar á Íslandi, næstu skref og einkum þau tækifæri sem felast í svokölluðu mælaborði um velferð barna sem ráðuneytið hefur unnið að í samvinnu við UNICEF á Íslandi og Kópavogsbæ sem leiðir verkefnið. „Það var afar ánægjulegt að hitta framkvæmdastjóra UNICEF á þessum hátíðlega degi, sjálfum þrjátíu ára afmælisdegi Barnasáttmálans, og eiga við hana samtal um verkefni okkar á Íslandi,“ segir Ásmundur Einar.

Hann fundaði einnig með Najat Maalla M’jid, sérlegum sendifulltrúa framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, en hún tók nýlega við því embætti. „Við vorum í nánu samstarfi við forvera Najat Maalla M’jid, Mörtu Santos Pais, sem lét af störfum í júlí síðastliðnum. Það er ljóst af þeim umræðum sem áttu sér stað á fundi okkar að Najat verður dýrmætur liðsauki fyrir okkur Íslendinga í vinnunni sem nú stendur yfir og í þeim áskorunum sem fram undan eru við að endurskipuleggja velferðarþjónustu fyrir börn á Íslandi. Ég er eftir þessa heimsókn fullur bjartsýni fyrir komandi tímum og hef þá trú að við séum á réttri leið og að á þeirri leið munum við njóta mikils stuðnings Sameinuðu þjóðanna.”

Ásmundur Einar tekur í dag þátt í áframhaldandi hátíðarhöldum vegna afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ávarpar þing um málefni barna, barnaþing, sem er haldið í Hörpu í dag og á morgun.

  • Í pallborðsumræðunum var hlutverkum snúið við. Börnin voru í aðalhlutverki. Hinir fullorðnu hlustuðu og spurðu börnin spurninga. - mynd
  • Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, færði Ásmundi Einari einn af þeim 3.758 bakpokum sem stillt var upp við höfuðstöðvar SÞ fyrr á þessu ári. Hver þeirra táknaði barn sem lést í stríðsátökum árið 2018. - mynd
  • Ásmundur Einar fundaði með Najat Maalla M’jid, sérlegum sendifulltrúa framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta