Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um lengingu fæðingarorlofs lagt fram á Alþingi

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og var það lagt fram á Alþingi í dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengist úr níu mánuðum samkvæmt gildandi lögum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Annars vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 og hins vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Tuttugu ár verða liðin frá gildistöku laganna árið 2020 og þykir tímabært að taka þau til heildarendurskoðunar. Ásmundur Einar hefur skipað nefnd í tengslum við þá endurskoðun og er gert ráð fyrir því að hægt verði að leggja fram frumvarp, byggt á störfum hennar, á haustþingi að ári. 

 „Það hefur lengi verið kallað eftir lengingu fæðingarorlofs og hækkun hámarksgreiðslna. Hámarksgreiðslur voru hækkaðar um síðustu áramót og þykir mér virkilega ánægjulegt að sjá að lengingin sé að verða að veruleika, enda hef ég lagt ríka áherslu á hvort tveggja. Næst er að fylgja heildarendurskoðun laganna eftir,“ segir Ásmundur Einar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta