Félags- og barnamálaráðherra undirritar samning við Grófina-geðverndarmiðstöð á Akureyri
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Valdís Eyja Pálsdóttir, forstöðumaður Grófarinnar - geðverndarmiðstöðvar á Akureyri undirrituðu í dag samning um tólf milljóna króna framlag til reksturs Grófarinnar. Samningurinn byggir á samþykkt fjárlaganefndar Alþingis og gildir til 31. desember 2020.
Meginmarkmið samningsins er að styrkja Grófina til að standa straum af kostnaði við starfsemina sem felst meðal annars í að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð í samræmi við hugmyndafræði valdeflingar. Eins að auka virkni fólks sem glímir við geðraskanir í daglegu lífi. Grófin stendur einnig fyrir hópstarfi og fræðslu fyrir notendur og aðstandendur auk þess að vinna að fræðslu og forvörnum í samfélaginu til að auka skilning og draga úr fordómum í garð þeirra sem glíma við geðraskanir.
Grófin hóf starfsemi á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn þann 10. október 2013 að frumkvæði Geðverndarfélags Akureyrar og nágrennis. Miðstöðin er staðsett í Hafnarstræti 95 á Akureyri. Grófin er ávöxtur grasrótarhóps notenda og fagfólks sem ákvað að byggja á tíu ára farsælu starfi Hugarafls í Reykjavík. Í upphafi var aðeins um sjálfboðastarf að ræða en með stuðningi opinberra aðila hefur tekist að byggja upp öfluga starfsemi.
„Það er afar mikilvægt að þjónusta sem þessi sé í boði á landsbyggðinni og að þeir sem á þurfa að halda þurfi ekki að leggjast í löng ferðalög til að sækja sér þjónustu við hæfi. Starfsemi Grófarinnar hefur gefið góða raun og er ánægjulegt að geta tryggt henni áframhaldandi brautargengi,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.