Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpunarráðherra kynnir Kríu frumkvöðlasjóð

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir kynnti í dag Kríu frumkvöðlasjóð, nýjan íslenskan hvatasjóð nýsköpunardrifins frumkvöðlastarfs. Kría verður hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum (Venture Capital) og mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar. Stofnun sjóðsins er ein af viðamiklum aðgerðum í þágu nýsköpunar sem ráðherra kynnti í dag á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins.

„Hér er um að ræða beinar aðgerðir í þágu nýsköpunar á Íslandi, aðgerðir sem munu styrkja, hvetja og hlúa að frumkvöðlastarfi á Íslandi. Nýsköpunarstefnan á að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Með Kríu frumkvöðlasjóði festum við í sessi og eflum fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og tryggjum þannig áframhaldandi vöxt þeirra með því að vera hvati vísifjárfestinga,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.

Kría frumkvöðlasjóður

Viðamesta aðgerðin er að settur verður á fót frumkvöðlasjóðurinn Kría sem hefur  þann tilgang að vera hvati vísifjárfestinga (Venture Capital/VC). Í fjármálaáætlun ríkissjóðs er gert ráð fyrir samtals 2.5 milljarði á næstu þremur árum til að fjármagna sjóðinn. Sjóðsstjórar vísisjóða á Íslandi geta, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fengið fjárfestingu frá Kríu. Það mun auka aðgengi sjóðsstjóra að fjármagni, auka fjármagn í umferð, auka líkur á að nýir sjóðir verði að veruleika, auka samfellu í fjármögnunarumhverfi og styðja við uppbyggingu reynslu og þekkingar í nýsköpunar- og sprotafjárfestingum.

Ráðherra kynnti fyrstu aðgerðir sínar í þágu nýsköpunar. Auk Kríu frumkvöðlasjóðs kynnti hún meðal annars:

Nýsköpun hjá hinu opinbera.

Nýsköpunarrráðherra hefur ákveðið að í fjárveitingum til þeirra stofnana sem heyra undir ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra verði gerð krafa um að hluta þeirra verði varið í aðkeyptar nýsköpunarlausnir.

Opinber gögn og hakkaþon

Nýsköpunarráðherra hefur farið þess á leit við Orkustofnun að stofnunin opnigögn sín og vera leiðandi í því að auka notkun á gögnum hins opinbera í þágu nýsköpunar. Til að ýta undir slíka notkun grunnanna, mun Orkustofnun skipuleggja hakkaþon þar sem saman koma fulltrúar stofnunarinnar og fulltrúar frumkvöðla, sem sjá möguleika í að nýta slík gögn til að þróa nýjar lausnir og skapa eitthvað nýtt.

Leyfilegt hlutfall lífeyrissjóða í vísisjóðum

Á Íslandi sækja vísisjóðir fjárfestingu sína aðallega til lífeyrissjóða. Núgildandi reglur um lífeyrissjóði gera vísisjóðum óþarflega erfitt fyrir að sækja sér fjármagn.

Til að mæta því er stefnt að því að leggja fram frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum í 35%.

Hugveitu ráðherra

Nýja hugveitu ráðherra, sem skipuð verður frumkvöðlum og nýsköpunar- og fjármálaráðherra. Verkefni hugveitunnar verða að leggja reglulega til ábendingar, tillögur eða vandamál sem þarfnast úrlausna á málefnasviðinu og að veita endurgjöf á áætlanir og verkefni ráðuneytanna sem snerta málaflokkinn, bæði ný verkefni, og núverandi umhverfi.

Þórdís Kolbrún hefur skipað 10 reynslumikla frumkvöðla og fjárfesta til setu í hugveitunni, auk ráðherra nýsköpunar og fjármálaráðherra:

  • Ari Helgason, fjárfestir hjá Index Ventures
  • Ágústa Guðmundsdóttir, meðstofnandi Zymetech og þróunarstjóri fyrirtækisins
  • Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fjárfestir og stjórnarmaður í ýmsum fyrirtækjumog fyrrum framkvæmdastjóri Actavis
  • Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia
  • Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrum stjórnandi hjá Google
  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Kerecis
  • Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, meðstofnandi og rekstrarstjóri Teatime Games, áður rekstrarstjóri QuizUp, og meðstofnandi & framkvæmdastjóri Clara
  • Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Avo
  • Tryggvi Þorgeirsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Sidekick Health
  • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect

Stór skref

„Þetta eru fyrstu aðgerðirnar í takt við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Þetta eru stór skref sem við stígum í dag en verkinu er hvergi nærri lokið og því á aldrei að ljúka. Við þurfum stöðugt að huga að því að skapa hér umhverfi þar sem frumkvöðlar finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Næstu aðgerðir verða kynntar í febrúar 2020,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Hér má nálgast upplýsingaskjal um aðgerðirnar

Hér má finna Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta