Forsætisráðherra ræddi afvopnunarmál, loftslagsbreytingar og kynferðislegt ofbeldi á fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sóttu afmælisfund leiðtoga Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Lundúnum í dag. Forsætisráðherra fjallaði þar um afvopnunarmál, loftslagsbreytingar og baráttuna gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vettvangi bandalagsins.
Á meðal umfjöllunarefna fundarins voru áskoranir í öryggis- og varnarmálum, netógnir, baráttan gegn hryðjuverkum, útgjöld bandalagsríkjanna til varnarmála, samskiptin við Rússland og horfur í afvopnunarmálum.
Í innleggi sínu lagði forsætisráðherra áherslu á afvopnunarmál og að styrkja þyrfti alþjóðlega samninga á því sviði, fremur en að veikja þá eins og reyndin er. Forsætisráðherra fjallaði einnig um loftslagsbreytingar sem eitt stærsta öryggismál samtímans sem þyrfti að taka á í stefnu bandalagsins. Þá tók forsætisráðherra undir mikilvægi nýrrar stefnu bandalagsins gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni og áréttaði mikilvægi þess að fjallað væri um ofbeldi gegn konum í sambandi við öryggis- og varnarmál.
„Afvopnunarmál voru rædd á fundinum og lýstu margir áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í kjölfar ógildingar INF-samningsins sem tekur á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Við erum að sjá bakslag í afvopnunarmálum sem skapar ógn við alla heimsbyggðina. Ég lagði áherslu á að nú þyrftu ríki að taka sig saman og komast aftur á rétta braut. Ég fjallaði um frið og stöðugleika í Norður-Atlantshafi á fundinum og um loftslagsbreytingar og ofbeldi gegn konum. Vísaði ég sérstaklega til #metoo-hreyfingarinnar. Við vitum að ofbeldi gegn konum margfaldast á ófriðartímum og nauðganir eru þekkt vopn í stríði. Þennan veruleika verður Atlantshafsbandalagið að taka alvarlega; í stefnumótun, innan allra sinna stofnana og á fundum leiðtoga“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Forsætisráðherra átti jafnframt fund með Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, þar sem fjallað var um stjórnmálaástandið, málefni Katalóníu og alþjóðasamvinnu. Utanríkisráðherra átti fund með Stef Blok, utanríkisráðherra Hollands, þar sem tvíhliða samskipti, málefni norðurslóða og alþjóðamál voru efst á baugi.
Þá sóttu forsætisráðherra og utanríkisráðherra hátíðarmóttöku í Buckingham-höll í boði Elísabetar II Bretadrottningar í gær. Forsætisráðherra var svo gestur í móttöku í Downingstræti 10 í boði forsætisráðherra Bretlands, í tilefni af sjötíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins en utanríkisráðherra sótti kvöldverð í boði Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands.