Brugðist við fjölgun umsókna um vegabréfsáritun til Íslands
Á undanförnum misserum hefur verið unnið að fjölgun afgreiðslustaða Schengen-vegabréfsáritana til Íslands til að bregðast við mikilli fjölgun umsókna.
Í dag var opnað fyrir afgreiðslu umsókna í Kuala Lumpur í Malasíu, en umsóknir verða fluttar þaðan til sendiráðsins í Nýju Delí til meðferðar. Til stendur að opna afgreiðslustaði í átta borgum til viðbótar á Indlandi eftir áramót til viðbótar við þá þrjá afgreiðslustaði sem nýlega voru opnaðir þar í landi.
Afgreiðslustöðum í Kína hefur þegar verið fjölgað úr einum í átta en búist er við að umsóknum um vegabréfsáritanir muni fjölga enn meira ef áform um áætlunarflug á milli Íslands og Shanghai verða að veruleika. Afgreiðsla umsókna í Washington hefst í febrúar og fjórum öðrum borgum í Bandaríkjunum mánuði síðar.
Vegna fjölgunar afgreiðslustaða og aukinnar eftirspurnar í Kína, auglýsir utanríkisráðuneytið eftir leyfafulltrúum til starfa við áritanadeild, en umsóknarfrestur rennur út þann 20. desember n.k. Hægt er að sækja um starfið á Starfatorgi.