Lög um heilbrigðisþjónustu endurspegli áherslur heilbrigðisstefnu
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu. Áformaðar breytingar eru liður í því að hrinda í framkvæmd heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þannig að lögin endurspegli áherslur hennar.
Heilbrigðisstefnan var samþykkt á Alþingi í júní síðastliðnum. Með henni hefur verið mótuð framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Eitt af markmiðum stefnunnar er að skapa heildrænt kerfi sem ætlað er að tryggja samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæta að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu. Liður í því er að skilgreina betur þjónustustig, hlutverk og ábyrgðarsvið heilbrigðisstofnana landsins, skapa þannig traustan grundvöll fyrir samhæfingu heilbrigðisþjónustu í landinu og tryggja landsmönnum sem best aðgengi að henni.
Í frumvarpinu eru skilgreind þrjú þjónustustig, þ.e. fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta og er það í samræmi við áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Undir fyrsta stigið fellur sú þjónusta sem jafnan er veitt á heilsugæslustöðvum. Fyrsta stigið á að tryggja landsmönnum alhliða heilbrigðisþjónustu eins nærri heimahögum og mögulegt er. Annars stigs heilbrigðisþjónustu er ætlað að taka við þegar ekki er unnt að mæta þörfum sjúklings á fyrsta þjónustustigi. Annars stigs þjónustan er veitt á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum um allt land og á starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna. Undir þriðja stigs heilbrigðisþjónustu fellur sérhæfð þjónusta sem krefst bæði sérstakrar kunnáttu og oft einnig háþróaðrar tækni og dýrra, vandmeðfarinna lyfja. Þá krefst hún einnig aðgengis að gjörgæslu. Á Íslandi er þessi þjónusta í langflestum tilvikum bundin við Landspítala en að einhverju leyti er slík þjónusta einnig veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Lagt er til að ákvæðum heilbrigðislaga um stjórnun heilbrigðisstofnana verði breytt þannig að forstjórar heilbrigðisstofnana fái skýrara umboð til að gegna stjórnunarhlutverki sínu. Ábyrgð og valdsvið stjórnenda verði þannig vel skilgreint en miði jafnframt að valddreifingu, í samræmi við áherslur heilbrigðisstefnu. Þá er lagt til að í stað sérstaks læknaráðs og hjúkrunarráðs sem í gildandi lögum er kveðið á um að starfi á háskólasjúkrahúsi og kennslusjúkrahúsi, komi eitt sameiginlegt fagráð fagstétta sem starfi ekki einungis á sjúkrahúsunum heldur einnig á heilbrigðisstofnunum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Ákvæði um eitt fagráð er ætlað að endurspegla markmið heilbrigðisstefnu um aukna áherslu á teymisvinnu fagstétta en fagráði heilbrigðisstarfsfólks er ætlað að vera forstjóra viðkomandi heilbrigðisstofnunar til stunings og ráðgjafar þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem varða innra starf og skipulag heilbrigðisstofnunar.