Samið um heimahjúkrun langveikra barna
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa samið við sjö hjúkrunarfræðinga í samstarfi við Landspítalann um að sinna heimahjúkrun langveikra barna á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn hefur verið undirritaður af samningsaðilum og staðfestur af heilbrigðisráðherra. Frá þessu er sagt á vef Sjúkratrygginga Íslands.
Hjúkrunarfræðingarnir sem taka að sér þjónustuna störfuðu áður hjá Heilsueflingarmiðstöðinni við hjúkrun barna í heimahúsum. Landspítalinn mun leggja til teymisstjóra sem tekur við öllum beiðnum um hjúkrun barna og kemur þeim í viðeigandi farveg.
Samningurinn gildir í eitt ár og verður samningstíminn nýttur til að vinna að framtíðarskipan þjónustunnar m.a. með það fyrir augum að samþætta hana við aðra þjónustu sem styður við búsetu í heimahúsum.
Í tilkynningu Sjúkratrygginga Íslands segir að varðandi geðhjúkrun barna hafi komið fram ábendingar frá fagaðilum um að geðheilbrigðisþjónustu við börn væri best sinnt af þverfaglegu teymi og að
Hvað geðhjúkrun barna varðar hafa komið fram ábendingar fagaðila á þessu sviði, að geðþjónustu við börn sé best sinnt af þverfaglegu teymi. Hafnar séu viðræður SÍ við við helstu fagaðila á þessu sviði í því augnamiði að endurskilgreina þjónustuna út frá faglegum sjónarmiðum og þörfum notenda.