Alþjóðamannréttindadagurinn haldinn hátíðlegur með málþingi
Lina al-Hathloul hefur að undanförnu barist fyrir frelsi systur sinnar, Loujain al-Hathloul, sem var rænt úti á götu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í maí 2018 og flutt til Sádi-Arabíu þar sem hún hefur síðan setið í fangelsi. Hún hefur meðal annars sætt pyntingum og einangrunarvist. Loujain hafði um árabil barist fyrir afnámi forræðis karla yfir konum í Sádí Arabíu og akstursbanni kvenna.
Utanríkisráðherra sagði sögu Loujain og Linu sýna íslenskum stjórnvöldum og öðrum fram á mikilvægi þess að beita sér í mannréttindamálum. Hann fór yfir átján mánaða setu Íslands í mannréttindaráðinu, sagði hafa komið berlega í ljós að rödd smærri ríkja heyrðist rétt eins hátt og stærri ríkja ef þau einsettu sér að beita sér með skýrum hætti, líkt og Ísland hefði gert í málefnum Sádí Arabíu og með ályktun um mannréttindaástand á Filippseyjum.
"Frásögn Línu færir okkur heim sanninn um hve mikið hefur áunnist hér á Ísland. Þótt sitthvað megi bæta hér heima fyrir þegar kemur að mannréttindum megum við aldrei gleyma því að þrátt fyrir allt njótum við forréttinda að svo mörgu leyti. Þess vegna verðum við – og fleiri – að tala máli þeirra sem mannréttindi eru brotin á. Ísland er kannski ekki fjölmennasta aðildarríki Sameinuðu þjóðanna en við höfum rödd – og okkur ber að láta hana heyrast,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ávarpi sínu.
Loujain al-Hahtloul var ein þeirra mannréttindafrömuða sem hópur ríkja hvatti stjórnvöld í Sádí-Arabíu til að frelsa í sameiginlegri yfirlýsingu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í mars sl., enda hefðu þau ekkert til sakar unnið annað en að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Ísland hafði frumkvæði að sameiginlegu yfirlýsingunni, sem vakti heimsathygli, en alls stóðu 36 ríki á bak við hana.
Lina þakkaði Íslandi þetta frumkvæði í ávarpi sínu og sagði engan þurfa að efast um að það skipti miklu máli að kastljósinu væri beint að Sádí-Arabíu með þessum hætti. Stjórnvöld þar væru viðkvæm fyrir alþjóðlegri gagnrýni og gagnrýnin hefði haft áhrif. Systir hennar hefði enn ekki verið látin laus úr haldi en fjölskylda hennar treysti því að það yrði fyrr en síðar.
Í pallborðsumræðum um hlutverk smærri ríkja á vettvangi mannréttindaráðsins tóku þátt þeir Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráðinu, Petter Wille, fyrrverandi framkvæmdastjóri norsku mannréttindastofnunarinnar og Kevin Whelan frá Genfar-skrifstofu Amnesty International. Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, tók enn fremur þátt í umræðunum í forföllum Ritu French, mannréttindasendiherra í fastanefnd Breta gagnvart mannréttindaráðinu. Auk þeirra tóku þátt í umræðunum alþingismennirnir Bryndís Haraldsdóttir og Smári McCarthy og Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður og stjórnarmaður í Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.