Samantekt um sjónarmið umsagnaraðila í samráði um staðartíma á Íslandi birt
Á undanförnum árum hefur farið fram umræða hvort seinka eigi klukkunni og færa staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu Íslands.
Tilgangurinn væri að bæta lýðheilsu með auknum meðalsvefntíma landsmanna. Með því móti megi bæta lýðheilsu og vellíðan, auka framleiðni og námsárangur og draga úr brotthvarfi úr skólum.
Starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra skilaði 31. janúar 2018 greinargerð um ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna til samræmis við gang sólar. Forsætisráðherra ákvað í janúar 2019 að setja málið í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Í greinargerðinni voru settir fram eftirfarandi þrír valkostir og var almenningi boðið að leggja fram sín sjónarmið í samráðsgátt stjórnvalda:
A. Klukkan áfram óbreytt en fólk hvatt með fræðslu til að fara fyrr að sofa.
B. Klukkunni seinkað um 1 klst.
C. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Þátttaka í samráðinu var miklu meiri en áður hefur þekkst. Alls bárust tæplega 1600 ábendingar. Margar umsagnir voru ítarlegar og vel rökstuddar og ljóst að fólk lagði mikla vinnu í vandaðar umsagnir.
Helstu rök sem umsagnaraðilar settu fram fyrir seinkun klukkunnar eru að staðartími eigi að vera í takt við líkamsklukku og að mikilvægt sé að fjölga birtustundum. Aukin morgunbirta hafi m.a. í för með sér að börn og unglingar væru í skóla í dagsbirtu nær allt skólaárið. Of fljót staðarklukka hafi í för með sér seinkun sólarupprásar og sé líkleg til að skekkja líkamsklukkuna og seinka henni. Seinkuð líkamsklukka hafi í för með sér neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar sem stafi af skertum nætursvefni á virkum dögum.
Helstu rök á móti seinkun klukku eru m.a. að birtustundum á bilinu 07:00 til 23:00 fækki um 13% yfir árið. Breyting muni leiða til skerðingar dagsbirtu í lok dags sem m.a. felur í sér aukna slysahættu og minni útiveru og þar af leiðandi minni íþróttaiðkun utandyra. Svefntími hefur styst verulega á síðustu áratugum án þess að breytingar hafi orðið á klukku og efasemdir eru um að stilling klukku hafi mikið að segja gagnvart raflýsingu, skjánotkun og nútíma lifnaðarháttum. Rannsóknir sem vísað er til eigi ekki við á norðlægum slóðum. Breyting muni skerða verulega lífsgæði íbúa á stöðum sem umluktir eru háum fjöllum, svo sem á Austfjörðum og Vestfjörðum. Meiri tímamunur milli Íslands og meginlands Evrópu muni auk þess hafa neikvæð áhrif á viðskiptalífið. Þannig muni minni síðdegisbirta hafa neikvæð áhrif á flug og ferðaþjónustu.
Forsætisráðuneytið mun vinna áfram með niðurstöður samráðsins en stefnt er að því að niðurstaða fáist í kringum vorjafndægur 2020.