Hoppa yfir valmynd
11. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðaráætlun um heilbrigðisþjónustu fanga

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Dómsmála- og heilbrigðisráðherra hafa samþykkt aðgerðaráætlun um aðgerðir í heilbrigðismálum í fangelsum og úræðum vegna vímuefnavanda fanga.

Aðgerðaráætlunin felur í sér viðamiklar breytingar er lúta að heilbrigðisþjónustu fanga og úrræðum vegna vímuefnavanda í fangelsum landsins. Afar mikilvægt er að tryggja eftirfylgni með þeim aðgerðum sem hópurinn leggur til. Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að endurskipa í starfshópinn  og veita honum umboð til að starfa áfram  til að styðja við og fylgja eftir innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar og gera tillögur til breytinga ef þörf krefur. Unnið verður að því innan beggja ráðuneyta að tryggja fjármagn í samræmi við lög um opinber fjármál.

Aðgerðaráætlunin felur í sér þrjár meginaðgerðir, þ.e. eflingu heilbrigðisþjónustu, skilgreiningu verklags og ábyrgðar í innri starfsemi fangelsanna vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu og þarfagreiningu og aðgerðaráætlun til að sporna við dreifingu og neyslu vímugjafa á Litla Hrauni.

Dómsmálaráðherra skrifaði grein um málefni fanga og aðgerðaráætlunina í Morgunblaðið í dag 11. desember 2019 sem lesa má hér.

Hér má finna aðgerðaráætlunina

Dómsmálaráðherra fjallar um aðgerðaráætluina á Facebook síðu sinni á slóðinni:https://www.facebook.com/aslaugarna/videos/580533992774759

Nánar:

Aðbúnaður og aðstæður fanga hafa verið til skoðunar um langt skeið og einkum hafa verið uppi áhyggjur af því að heilbrigðisþjónusta, þ. á m. geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónusta, sé ekki fullnægjandi. Má nefna að umboðsmaður Alþingis hefur um nokkurt skeið haft þetta til skoðunar aðbúnað sem og aðbúnað geðsjúkra fanga í afplánunarfangelsum. Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins til Umboðsmanns Alþingis í mars 2018, kom m.a. fram að ráðuneytið teldi framkvæmd laga um fullnustu refsinga ekki tryggja með fullnægjandi hætti réttindi fanga skv. 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem aðgangur þeirra að geðheilbrigðisþjónustu væri ekki alltaf tryggður og að brýnt tilefni væri til að endurskoða geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni sem og almennt í fangelsum landsins. Þá tók ráðuneytið fram að samráð við ráðuneyti heilbrigðismála og fangelsismálayfirvöld væri mikilvægt í því skyni.

Dagana 17. - 24. maí sl. var nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT nefndin) við eftirlit hér á landi en hún fór á ýmsa staði þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja, þ. á m. fangelsi landsins. Þann 3. júní sl. barst ráðuneytinu yfirlýsing nefndarinnar sem felur í sér helstu bráðabirgðaniðurstöður. Alvarlegasta athugasemd nefndarinnar varðaði heilbrigðisþjónustu við fanga og auk þess fjallaði nefndin um skort á heildstæðri aðgerðaráætlun til að takast á við þann áfengis- og vímuefnavanda sem er í fangelsum landsins. Þá voru gerðar alvarlegar athugasemdir við geðheilbrigðisþjónustu við fanga og áréttað að verulega vanti upp á að þeim sé tryggð sú aðstoð sem þeir þurfa. CPT nefndin fór fram á að henni yrði send áætlun um aðgerðir til að efla heilbrigðisþjónustu og úrræði vegna vímuefnavanda í fangelsum.

Þann 5. júlí sl., skipaði dómsmálaráðherra starfshóp til að taka til skoðunar heilbrigðisþjónustu í fangelsum, einkum geðheilbrigðisþjónustu og úrræði vegna vímuefnavanda, m.a. með hliðsjón af heimsókn CPT nefndarinnar, og vinna drög að aðgerðaráætlun. Starfshópurinn hefur nú lokið vinnu sinni.

Aðgerðaráætlunin felur í sér þrjár meginaðgerðir, þ.e. eflingu heilbrigðisþjónustu, skilgreiningu verklags og ábyrgðar í innri starfsemi fangelsanna vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu og þarfagreiningu og aðgerðaráætlun til að sporna við dreifingu og neyslu vímugjafa á Litla Hrauni. 

Stofnað verður geðheilsuteymi sem rekið verður að fyrirmynd geðheilsuteyma heilsugæslunnar, heilbrigðisstofnanna og geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í teyminu munu starfa sálfræðingar, geðlæknar, geðhjúkrunarfræðingar og aðrar þær fagstéttir sem þörf er á. Markmið geðheilsuteymis fangelsanna er að veita almenna og sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum og einstaklingsmiðað, samhæfða og samfellda geðheilbrigðisþjónustu í tengslum við heilbrigðis- og félagsþjónustu, innan og utan fangelsanna.

Fangelsið á Litla-Hrauni á sér 90 ára sögu og byggingar og aðbúnaður ber þess merki að í gegnum tíðina hefur verið reynt að leysa ólík vandamál með þeim byggingum sem hafa verið reistar á mismunandi tíma. Heildstæð hönnun á Litla-Hrauni í takt við notkun sem fangelsi hefur aldrei átt sér stað og ávallt er verið að reyna að notast við gamlar og stundum úreltar byggingar til að leysa vanda dagsins í dag. Núverandi byggingar gagnast ekki til aðgangsstýringar og aðskilnaðar fangahópsins sem auðveldar fíkniefnadreifingu til muna og eykur líkurnar á ofbeldi. Starfshópurinn leggur til að gerð verði þarfagreining sem feli í sér tillögur að aðstöðubreytingum í fangelsinu að Litla-Hrauni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta