Hoppa yfir valmynd
11. desember 2019 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um nýja loftferðasamninga á ráðstefnu ICAO

Loftferðasamningur við Marokkó áritaður - myndUtanríkisráðuneytið

Sendinefnd Íslands gerði nýja loftferðasamninga, uppfærði eldri loftferðasamninga og viljayfirlýsingar um flugsamgöngur milli Íslands og annarra landa á árlegri loftferðasamningaráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem lauk fyrir skemmstu. Samkomulag hefur náðst við Marokkó og Mósambík um nýja loftferðasamninga.

Árleg loftferðasamningaráðstefna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) var haldin í Aqaba í Jórdaníu í fyrstu viku desembermánaðar þar sem fulltrúar sjötíu ríkja komu saman til að ræða nýja samninga um loftferðir og uppfæra eldri samninga.

Á ráðstefnunni náði íslenska sendinefndin samkomulagi um loftferðasamninga við Marokkó og Mósambík. Samningarnir voru áritaðir og samið um að þar með verði hægt að beita þeim. Þá var loftferðasamningur Íslands við Síerra Leóne uppfærður og ný útgáfa hans árituð. Samið var um að þar með væri hægt að beita nýju útgáfunni. Auk þess var loftferðasamningur við Sádi-Arabíu undirritaður.  

Þá var farið yfir loftferðasamninga við Senegal og Sambíu og staðfest fundargerð um samninginn við fyrrnefnda ríkið undirrituð. Jafnframt voru samþykktar breytingar á viljayfirlýsingu sem fylgir loftferðasamningi við Kenía og ný viljayfirlýsing undirrituð um flugsamgöngur Íslands og Kólumbíu sem veitir frekari réttindi en eldra minnisblað kveður á um. Samkomulag náðist við Suður-Kóreu um staðfesta fundargerð þar sem fjallað er um flugréttindi og fleiri atriði í viðræðum um loftferðasamning milli landanna og rætt var við sendinefnd Gvatemala um gerð viljayfirlýsingar um flugsamgöngur milli landanna.

Jafnframt átti íslenska sendinefndin samráðsfundi með sendinefndum Bretlands, Bandaríkjanna og Finnlands á ráðstefnunni.

Ísland hefur gert loftferðasamninga og viljayfirlýsingar sem heimila flug til 115 ríkja , en aukin umsvif íslenskra flugrekenda á síðustu árum hafa kallað sérstaklega á gerð loftferðasamninga. Þótt samningarnir veiti misjafnlega víðtæk réttindi er um að ræða gagnkvæmar heimildir til farþega- og farmflugs milli samningsríkja.

Í íslensku sendinefndinni voru Benedikt Ásgeirsson sendiherra og Kristín Helga Markúsdóttir, deildarstjóri hjá Samgöngustofu.

  • Uppfærður loftferðasamningur Íslands og Síerra Leóne áritaður - mynd
  • Sendinefndir Íslands og Suður-Kóreu - mynd
  • Viljayfirlýsing um flugsamgöngur Íslands og Kólumbíu undirrituð - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta