Ríkisstjórnin styrkir íslenska myndmálssögu
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita fjórar milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til rannsóknar á íslenskri myndmálasögu og útgáfu hennar. Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), rannsóknaprófessor við Listaháskóla Íslands, vinnur að rannsókninni.
Rannsóknin og efniviður hennar tekur m.a. til þjóðarímyndar og myndrænnar mótunar hugmynda þjóðarinnar um fullveldi og sjálfstæði. Meðal viðfangsefna er að fjalla um þróun skjaldarmerkisins og þjóðfána Íslands. Jafnframt er sérstök áhersla lögð á að skoða hlutdeild kvenna í myndmálssögunni, sem áður var talin lítil sem engin. Styrknum er ætlað að standa undir útgáfu bókar á árinu 2020 sem mun eiga erindi við fræðimenn og almenning. Verkefnið tengist fullveldisafmælinu sem fagnað var í fyrra.
Rannís hefur áður veitt verkefninu styrk til heimildaöflunar og rafrænnar skrásetningar. Þá hefur Listaháskóli Íslands veitt verkefninu stuðning með launaframlagi og rannsóknaraðstöðu.