Skýrsla um jarðstrengi í flutningskerfi raforku
Í þingsályktun 26/148, frá júní 2018, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, kemur fram að sérfróður aðili skuli fenginn til að gera sjálfstæða rannsókn á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína og á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð, með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggis, hagkvæmni, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar. Er það í samræmi við þær áherslur sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að treysta þurfi betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði, tryggja afhendingaröryggi um land allt og skoða að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi í slíkar tengingar með hagkvæmum hætti.
Til að fylgja því verkefni eftir fengu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, á síðasta ári, óháðan sérfróðan aðila, dr. Hjört Jóhannsson, til að vinna skýrslu um jarðstrengi í flutningskerfi raforku út frá framangreindum efnisatriðum. Skýrsla hins sérfróða aðila liggur nú fyrir og hefur hún verið sett í opið umsagnarferli á samráðsgátt stjórnvalda.
Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér hana og senda inn umsögn. Í framhaldinu verður farið ítarlega yfir umsagnir og að því loknu lagt mat á það hvort skýrslan og innsendar umsagnir kalli á breytingar á þeim viðmiðum og meginreglum sem gilda um lagningu jarðstrengja og loftlína, sem fram koma í þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.