Kristján Þór undirritar reglugerð um viðbótartryggingar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna innflutnings á svína- og nautakjöti.
Þetta þýðir að þessum matvælunum skal alltaf fylgja vottorð sem byggja á salmonellu rannsóknum og sýna að hún hafi ekki greinst. Í því felst að framleiðandi eða sendandi vörunnar taki sýni úr öllum sendingum á svína- og nautakjöti. Ef varan er laus við salmonellu er gefið út vottorð þess efnis. Án slíks vottorðs verður innflutningur ekki heimilaður. Reglugerðin tekur gildi 1. janúar nk.
Drög að reglugerðinni voru birt á samráðsgátt stjórnvalda og barst ein umsögn frá Félagi svínabænda. Í henni kemur fram að félagið styðji heilshugar viðbótatryggingar og lýsti félagið yfir ánægju sinni með reglugerðina. „Hér er á ferðinni skýrt dæmi þar sem hagsmunir framleiðenda og neytenda fara saman,“ segir í umsögninni.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Þetta er virkilega ánægjulegur og mikilvægur áfangi. Á þessu ári hefur Ísland fengið heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar varðandi innflutning á kjúklingakjöti, kalkúnum, eggjum, svína- og nautakjöti en nágrannalönd Íslands hafa haft slíkar heimildir um árabil. Þannig hefur okkur á þessum skamma tíma tekist að byggja upp raunhæfar og lögmætar varnir fyrir matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.“
Hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda
Viðbótartryggingarnar eru unnar í samræmi við aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.