Hoppa yfir valmynd
17. desember 2019 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir framkvæmdir á varðskipinu Óðni

Varðskipið Óðinn við Sjóminjasafnið - myndJón Páll Ásgeirsson

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita fjórar milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til framkvæmda á varðskipinu Óðni til að undirbúa siglingu þess sjómannadagshelgina 6. og 7. júní í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá því að skipið kom nýtt til landsins árið 1960. 

Saga varðskipsins Óðins er samtvinnuð sögu þjóðarinnar. Skipið var upphaflega fullkomnasta björgunarskip á Norðurhöfum. Skipið tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öldinni en þorskastríðin skiptu sköpum fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þá gegndi skipið um árabil veigamiklu hlutverki við eftirlit á sjó og þegar ófært var eða erfiðleikar við fólks- og vöruflutninga, ekki síst í afskekktustu byggðir landsins.

Hollvinasamtök varðskipsins Óðins voru stofnuð árið 2006 með það að markmiði að koma í veg fyrir að varðskipið, sem þá hafði lokið hlutverki sínu, yrði selt úr landi í brotajárn. Árið 2008 afhentu stjórnvöld skipið til hollvinasamtakanna með þeirri kvöð að minja- og varðveislugildi skipsins yrði viðhaldið og að skipið yrði opið almenningi til skoðunar hér á landi, sem hluti af minjum og fróðleik um þorskastríðsárin. Í kjölfarið fólu hollvinasamtökin Sjóminjasafninu í Reykjavík að annast varðveislu þess og rekstur sem safns. Skipið er einn glæsilegasti sýningargripur Sjóminjasafnsins og er boðið upp á leiðsögn um skipið þrisvar á dag auk þess sem skipið er opið gestum á hátíðisdögum.

Styrkveiting ríkisstjórnarinnar er liður í því að Hollvinasamtök Óðins geti gangsett skipið í tilefni af afmælinu næsta sumar en Alþingi samþykkti einnig að tillögu fjárlaganefndar að veita 15 milljónir króna á fjárlögum ársins 2020 til framkvæmdanna. Þá veitir mennta- og menningarmálaráðuneyti árlegt rekstarframlag til Sjóminjasafns Reykjavíkur vegna skipsins.

  • Varðskipið Óðinn árið 1995 - mynd

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta