Viljayfirlýsing um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra hafa undirritað viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til að hann geti þjónað sem fluggátt inn í landið og eflt svæðið og ferðaþjónustu á Íslandi.
Í viljayfirlýsingunni segir að góðar aðstæður séu til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli. Þegar hafi verið unnið að því að efla Akureyrarflugvöll fyrir millilandaflug, fyrst með lengingu flugbrautarinnar og einnig með uppsetningu á blindaðflugsbúnaði (ILS). Samhliða hafi verið unnið að því um árabil að markaðssetja Norðurland og um leið að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða.
Í nýrri flugstefnu fyrir Ísland, sem lögð fram á Alþingi í haust með samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034, er gert ráð fyrir uppbyggingu flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum til að þeir geti þjónað sem alþjóðlegar fluggáttir.
Aðgerðahópur skipaður
Aðgerðahópur verður skipaður til að vinna að verkefnum í samræmi við viljayfirlýsinguna. Hópnum verður falið að gera tillögu um endurbætur á flugstöðinni til framtíðar, vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað og loks að gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur mannvirkja og þjónustu. Í hópnum verða fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustu á Norðurlandi og Isavia. Hann á að ljúka störfum fyrir lok mars 2020.