Fjarvinnslustöðvar fá 24 milljónir króna í verkefnastyrki
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 (aðgerð B.8 - fjarvinnslustöðvar). Að þessu sinni var 24 milljónum króna úthlutað til þriggja verkefna fyrir árin 2019-2020. Þá hafa einnig verið gefin fyrirheit um styrki að heildarupphæð 55 milljónum króna til ársins 2023. Auglýst voru framlög fyrir árin 2019-2020 en heimilt er að styrkja sama verkefni til allt að fimm ára, með fyrirvara um fjárheimildir fjárlaga hvers árs.
Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.
Við mat á umsóknum var stuðst við þætti eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna og verða samningar vegna styrkjanna undirritaðir snemma á nýju ári.
Verkefnin þrjú sem hljóta styrk eru:
- Skráning þinglýstra gagna í landeignaskrá. Samstarf við verkefnið Brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey. Þjóðskrá Íslands hlýtur styrk sem nemur 9 m.kr. árið 2020 og 9 m.kr. árið 2021. Samtals 18 m.kr.
- Gagnagrunnur sáttanefndarbóka. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, í samstarfi við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Þjóðskjalasafn hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. á ári í þrjú ár, árin 2020-2022, og 4,6 m.kr árið 2023, samtals 31,6 m.kr.
- Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð 6 m.kr. árið 2020.
Þriggja manna valnefnd fór yfir þær 18 umsóknir sem bárust og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefndinni sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður. Með valnefnd störfuðu Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.