Fréttaannáll samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2019
Nýliðið ár var viðburðaríkt í öllum málaflokkum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Mikilvæg þingmál voru samþykkt, unnið var að nýrri stefnumörkun á ýmsum sviðum og ráðstefnur og fundir haldnir um fjölbreytt viðfangsefni.
Á nokkrum sviðum var ný heildarlöggjöf samþykkt eftir margra ára undirbúning. Þannig voru ný umferðarlög samþykkt á árinu, ný heildarlöggjöf um póstþjónustu og ný heildarlög um skráningu einstaklinga. Þá voru samþykkt lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða og ennfremur lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta.
Stefna í fjarskiptum fyrir tímabilið 2019-2033 og fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2033 var samþykkt í júní. Á haustdögum var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum sveitarfélaga, sú fyrsta sinnar tegundar á Alþingi. Loks var þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi í byrjun desember um endurskoðaða samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 með tillögum um aukin framlög og flýtingu framkvæmda. Í nýrri samgönguáætlun eru einnig drög að fyrstu flugstefnu fyrir Ísland og drög að stefnu í almenningssamgöngum milli byggða. Á árinu hélt ráðuneytið fundi eða ráðstefnur um almenningssamgöngur, umferðaröryggi, konur og siglingar, netöryggismál og börn og samgöngur svo nokkuð sé nefnt.
Fréttaannáll
- 1. jan. - Ný lög um lögheimili og aðsetur tóku gildi um áramótin
- 10. jan. - Námskeið í netöryggisfræðum með fyrirlesara frá Oxford-háskóla.
- 18. jan. - Samkomulag við japönsk yfirvöld greiðir fyrir beinum flugsamgöngum.
- 7. febr. - Samgönguáætlun fyrir tímabilið 2019-2033 samþykkt á Alþingi.
- 14. febr. - Stefna mótuð um almenningssamgöngur fyrir allt landið.
- 28. febr. - Morgunverðarfundur haldinn um almenningssamgöngur milli byggða.
- 4. mars - Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hlýtur jafnlaunavottun.
- 20. mars - Ráðherra fjallar um fjárfestingar í innviðum og endurgreiðslur í flugi á ráðherrafundi OECD í Aþenu um stefnumörkun í byggðaþróun.
- 22. mars - Samið við 23 sveitarfélög um styrki til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli.
- 3. apr. - Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins kynntar.
- 5. apr. - Rannsóknarsetur um sveitarstjórnarmál formlega opnað á Laugarvatni.
- 5. apr. - Skýrsla starfshóps um fjármögnun flýtiframkvæmda kynnt.
- 9. apr. - Ráðherra úthlutar 71,5 milljónum króna til verkefna á landsbyggðinni.
- 10. apr.- Viðbrögð stjórnvalda vegna gjaldþrots WOW kynnt.
- 11. apr.- Ráðherra fjallar um öfluga og markvissa byggðastefnu á ársfundi Byggðastofnunar.
- 17. apr.- Síðasta sprenging í nýjum Dýrafjarðargöngum.
- 23. apr. - Gjaldskrár vatnsveitna teknar til skoðunar eftir úrskurð ráðuneytis um að álagning OR á vatnsgjaldi 2016 hafi verið ólögmæt
- 26. apr. - Frumkvæðisathugun á framkvæmd fjárhagsáætlana sveitarfélaga lokið
- 2. maí - Ársrit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gefið út.
- 6. maí - Ný og endurbætt upplýsingagátt Jöfnunarsjóðs opnuð.
- 9. maí - Nýtt og endurbætt slysakort kynnt á morgunverðarfundi um umferðaröryggi.
- 24. maí - Ráðherra flytur ávarp á aðalfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra
- 3. júní - Jón Gunnar Jónsson skipaður forstjóri Samgöngustofu.
- 3. júní - Ný stefna í fjarskiptum 2019-2033 og fjarskiptaáætlun 2019-2023 samþykkt á Alþingi.
- 6. júní - Fjarskiptasjóður styrkir uppbyggingu Neyðarlínu á stofnleiðum ljósleiðara og aðstöðu fyrir fjarskiptasenda.
- 8. júní - Ferðamannavegurinn Norðurstrandarleið opnaður.
- 11. júní - Ný umferðarlög samþykkt á Alþingi.
- 11. júní - Lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða samþykkt á Alþingi.
- 11. júní - Nýtt gagnvirkt þjónustukort opnað á vef Byggðastofnunar.
- 15. júní - Nýr Herjólfur formlega nefndur og afhentur Vestmannaeyingum.
- 19. júní - Ný framtíðarsýn samþykkt fyrir Norrænu ráðherranefndina á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi.
- 20. júní - Ný heildarlöggjöf um póstþjónustu samþykkt á Alþingi
- 24. júní - Verzlunarfjelag Árneshrepps opnað á Ströndum m.a. með styrkjum á grundvelli byggðaáætlunar.
- 26. júní - Fjölmennt málþing um fjarheilbrigðisþjónustu í dreifbýli.
- 28. júní - Ný vestnorræn byggðaþróunarstefna samþykkt á fundi norrænna byggðamálaráðherra á Íslandi.
- 2. júlí - Jarðgöng og lágbrú metnir fýsilegir kostir fyrir Sundabraut í skýrslu starfshóps.
- 14. ágúst - Samgöngubætur á Austurlandi með hringtengingu ganga kynntar í nýrri skýrslu
- 14. ágúst - Nýr vegarkafli í Berufirði opnaður. Með þeim áfanga er hringvegurinn allur lagður með bundnu slitlagi.
- 2. sept. - Frumvarp um íslensk landshöfuðlén í samráðsgátt.
- 6. sept. - Ráðherra flytur ávarp á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og kynnir þingsályktunartillögu um stefnu í málefnum sveitarfélaga.
- 11. sept. - Áherslur samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra í frumvarpi til fjárlaga 2020 kynntar.
- 12. sept. - Alþjóðleg ráðstefna um tækifæri og áskoranir í byggðamálum haldin í Háskólanum á Akureyri á vegum ráðuneytisins og Nordregio.
- 16. sept. - Nýr Þingvallavegur opnaður eftir miklar endurbætur til að auka öryggi.
- 24. sept. - Þingsályktunartillaga um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga lögð fram á Alþingi.
- 26. sept. - Sáttmáli undirritaður um fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
- 26. sept. - Ráðstefna um konur og siglingar haldin undir yfirskriftinni „Hvað er svona merkilegt við það?“ á vegum ráðuneytisins og Siglingaráðs.
- 1. okt. - Október var helgaður netöryggismálum í mörgum löndum Evrópu
- 2. okt.- Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga haldinn. Heildarframlög sjóðsins árið 2018 námu tæpum 47,7 milljörðum.
- 3. okt.- Ráðstefna um netöryggismál haldin undir yfirskriftinni: Netógnir í nýjum heimi.
- 3. okt.- Greining á vegum ráðuneytisins leiðir í ljós 3,6-5 milljarða árlega hagræðingu af sameiningum sveitarfélaga.
- 17. okt.- Morgunfundur um endurskoðaða samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034. Fyrsta flugstefna Íslands kynnt.
- 23. okt.- Undirritun samnings um fullgildingu Höfðaborgarsamþykktar um öryggi stærri fiskiskipa markar tímamót í öryggismálum fiskiskipa
- 29. okt.- Ný lög samþykkt á Alþingi um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta.
- 31. okt.- Morgunfundur haldinn um netárásir á fyrirtæki í samvinnu við Samtök atvinnulífsins.
- 1. nóv. - Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna hófst en landskeppni fer fram í febrúar 2020.
- 12. nóv. - Samningar undirritaðir um sóknaráætlanir landshluta til fimm ára.
- 13. nóv. - Tæpum fimmtán milljónum úthlutað til verslunar í strjálbýli á grundvelli byggðaáætlunar
- 14. nóv. - Ráðstefna haldin um flutningalandið Ísland.
- 15. nóv. - Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir í samráðsgátt.
- 17. nóv. - Árlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn á fjórtán stöðum um land allt.
- 18. nóv. - Málþing haldið um börn og samgöngur með þátttöku sérfræðinga og ungs fólks, þ.á m. úr ungmennaráði Grindavíkur og unglingadeildum Landsbjargar.
- 26. nóv. - Póst- og fjarskiptastofnun falið að útnefna alþjónustuveitanda í pósti.
- 28. nóv. - Ríki og borg undirrita samkomulag á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu.
- 29. nóv. - Allir byggðakjarnar landsins með háhraðatengingu eftir tengingu ljósleiðara til Mjóafjarðar.
- 3. des. - Ný heildarlög um skráningu einstaklinga samþykkt á Alþingi
- 4. des. - Ráðherra mælir fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2020-2034 með tillögum um aukin framlög og flýtingu framkvæmda.
- 5. des. - Nýjungar í nýju frumvarpi um leigubifreiðaakstur kynntar.
- 10. des. - Stefnumótun í sveitarstjórnarmálum kynnt á fundi Evrópuráðsins í Strassborg.
- 11. des. - Frumvarp til nýrra laga um fjarskipti birt í samráðsgátt.
- 13. des. - Ráðherra heimsækir byggðir á Norðurlandi sem verst urðu úti í fárviðri dagana á undan. Starfshópur skipaður um úrbætur á innviðum eftir fárviðrið.
- 17. des. - Lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa samþykkt.
- 19. des. - Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnir viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli.
- 27. des. - Fjarvinnslustöðvar fá 24 milljónir króna í verkefnastyrki á grundvelli byggðaáætlunar.