Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra semur við Sólheima um kolefnisjöfnun

Skrifað var undir samninginn á Sólheimum í morgun. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurjón Örn Þórsson, stjórnarformaður Sólheimaseturs SES, undirrituðu í dag samning um kolefnisjöfnun. Samningurinn er til fimm ára. Markmið hans er að binda kolefni sem til fellur vegna starfsemi félagsmálaráðuneytisins. Kolefnisbindingin fer fram með þeim hætti að gróðursett verða tré í Sólheimaskógi á Sólheimum, en skógræktin á Sólheimum er með lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni. Með samningnum er verið að styðja við fjögur til sex störf fyrir íbúa Sólheima við ræktun og gróðursetningu.

Með samningnum skuldbindur félagsmálaráðuneytið sig til að halda kolefnisbókhald yfir þá starfsemi sem kolefnisjöfnunin nær til. Í það skal meðal annars skrá notkun jarðefnaeldsneytis farartækja og flugferðir starfsmanna innanlands og á milli landa. Sömuleiðis förgun og aðra þætti sem leiða til kolefnislosunar eftir því sem við á.

Útreikningur á umfangi kolefnislosunar verður unninn í samvinnu við Sólheimasetur SES og skal upplýsingum um árlega kolefnislosun ráðuneytisins skilað til setursins einu sinni á ári. Þá skuldbindur Sólheimasetur sig til að skrá með nákvæmum hætti fjölda trjáa sem gróðursett verða, staðsetningu þeirra og dagsetningu gróðursetningar þannig að staðfesta megi með rekjanlegum hætti að kolefnisjöfnun hafi sannarlega farið fram. 

Samningurinn nær eingöngu til félagsmálaráðuneytisins en Ásmundur Einar hefur auk þess sent út bréf til stofnana ráðuneytisins með þeim tilmælum að þær setji sér markmið um kolefnishlutleysi.

„Ég gleðst yfir þessum góða samningi enda nauðsynlegt að stjórnvöld setji gott fordæmi í lofslagsmálum. Jafnframt er ég mjög ánægður með aðkomu Sólheima að verkefninu. Samningurinn mun bæði styrkja þá góðu og metnaðarfullu starfsemi sem þar fer fram og fjölga störfum fyrir fólk með fötlun,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta