Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um þjónustu Ljóssins

Heilbrigðisráðherra og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands - myndHeilbrigðisráðuneyti - /ME

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert þjónustusamning við Ljósið um endurhæfingarþjónustu við fólk sem greinst hefur með krabbamein. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samninginn sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn og gildir til ársloka 2023. Alls eru 220 milljónir króna tryggðar rekstri Ljóssins í fjárlögum þessa árs.

Ljósið var formlega stofnað í janúar árið 2006. Markmið þess frá upphafi hefur verið að sinna endurhæfingu og veita stuðning þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra. Ljósið er viðurkennd heilbrigðisstofnun samkvæmt skilgreiningu laga og heyrir undir eftirlit Embættis landlæknis. Þjónusta Ljóssins er þverfagleg og einstaklingsmiðuð og felst m.a. í iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu, næringarráðgjöf og félagslegri virkni.

Fyrstu árin í starfsemi Ljóssins voru þjónustusamningar um starfsemina við Tryggingastofnun ríkisins og einnig voru um tíma samningar milli Ljóssins og ráðuneyta félags- heilbrigðis- og menntamála. Frá árinu 2011 hafa verið samningar milli Ljóssins og Vinnumálastofnunar ásamt ýmsum öðrum samningum um endurhæfingar. Ljósið hefur því í gegnum tíðina þurft að tryggja rekstur sinn frá ári til árs með þjónustusamningum, gjöfum og söfnunarfé. Rekstrargrundvöllurinn hefur því aldrei verið fyrirsjáanlegur til lengri tíma, með tilheyrandi óvissu fyrir rekstraraðila, starfsfólk og síðast en ekki síst notendur þjónustunnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir fagnaðarefni að þessi mikilvæga þjónusta sé nú veitt á öruggum forsendum þar sem rekstrarféð er tryggt og þjónustan og umgjörðin um hana skilgreind í heildstæðum samningi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta