Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinna við nýja stefnumótun fyrir líffræðilega fjölbreytni að hefjast

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað stýrihóp til að vinna að nýrri stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi.

Núverandi stefna Íslands um líffræðilega fjölbreytni er frá árinu 2008 en talsverð þróun hefur orðið síðan sem kallar á endurskoðun hennar. Má þar sérstaklega nefna ýmsar endurbætur í löggjöf, aðra opinbera stefnumótun og breyttar alþjóðlegar áherslur s.s. með tilkomu Heimsmarkmiðanna, Parísarsamkomulagsins og þróun hugmynda um hringrásarhagkerfið.

Líffræðileg fjölbreytni (e: biodiversity) vísar til fjölbreytileika í lífríkinu. Lífríkið er einnig mikilvægur þáttur íslenskrar náttúru og um leið hluti náttúruauðlinda sem leggja grunn að velsæld í landinu. Líffræðileg fjölbreytni landsins hefur raskast mikið í aldanna rás og er endurheimt landgæða mikilvægt verkefni stjórnvalda. Í stefnumótun Íslands á þessu sviði þarf því m.a. að leggja áherslu á verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra nýtingu auðlinda lífríkisins og svo endurheimt þess sem raskað hefur verið s.s. vistkerfa, búsvæða og tegunda.

Ísland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) árið 1994, en markmið hans eru m.a. að stuðla að vernd líffræðilegar fjölbreytni og sjálfbærri nýtingu hennar.

Málefni líffræðilegrar fjölbreytni verða mikið til umfjöllunar á alþjóðlegum vettvangi í ár. Í október verður haldið í Kína aðildarríkjaþing samningsins um líffræðilega fjölbreytni, þar sem samþykkja á nýja alþjóðlega stefnu fyrir líffræðilega fjölbreytni heimsins. Það fer því vel á því að hefja vinnu við endurskoðun þessarar stefnu hér á landi á sama tíma og nýjar alþjóðlegar áherslur eru að þróast og mótast.

Líffræðilegri fjölbreytni hefur hnignað verulega á alþjóðavísu undanfarin ár. Vísindamenn telja að ein milljón dýra- og plöntutegunda séu nú í útrýmingarhættu í heiminum ef ekkert verður að gert en niðurstöður þeirra voru kynntar á síðasta ári á vegum samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Stýrihópurinn er þannig skipaður:

  • Jón Geir Pétursson, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Sigurður Á. Þráinsson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Hafdís Hanna Ægisdóttur, forstöðumaður Landgræðsluskólans, skipuð án tilnefningar,
  • Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands, skipaður án tilnefningar,
  • Ásta Einarsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Elín Ragnheiður Guðnadóttir, sérfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti,
  • Rögnvaldur Gunnar Gunnarsson, lögfræðingur, tilnefndur af heilbrigðisráðuneyti.

Stýrihópurinn mun hafa samráð við fulltrúa ýmissa aðila, m.a. stofnana, félagasamtaka og hagsmunaaðila sem málið varðar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta