Skýrsla um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir afhent forsætisráðherra
Páll Hreinsson hefur afhent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra skýrslu um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir. Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 2018 að fela Páli að gera úttekt á starfsemi sjálfstæðra stjórnsýslunefnda í tilefni af 25 ára afmæli stjórnsýslulaganna 1. janúar 2019.
Alls féll 61 stjórnsýslunefnd undir rannsóknina en þær heyra undir mismunandi ráðuneyti. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar þegar sjálfstæðum stjórnsýslunefndum hefur verið komið á fót. Meðal algengra sjónarmiða sem færð hafa verið fyrir því að koma á fót slíkum nefndum eru skilvirkni- og kostnaðarsjónarmið, réttaröryggissjónarmið, kröfur um samræmi í lagaframkvæmd, skortur á tiltekinni sérfræðiþekkingu innan ráðuneyta, að ráðherra fari með fyrirsvar almannahagsmuna sem eru ósamrýmanleg stöðu hans sem óháðs úrskurðaraðila í kærumáli og að lokum að mikill fjöldi kærumála er á hlutaðeigandi sviði.
Skýrslan leiðir hins vegar í ljós að almennt virðist ekki hagkvæmara að skipa sjálfstæða stjórnsýslunefnd frekar en að vista mál í hefðbundnum farvegi stjórnsýslunnar. Meðferð mála hjá nefndunum er ekki í öllum tilvikum skilvirkari en í ráðuneytunum og einnig er ljóst að hjá sumum nefndum getur verið brotalöm á að starfsaðstaða, skjalastjórn og upplýsingaöryggi sé viðunandi.
Loks eru í skýrslunni dregin saman þau sjónarmið sem að mati skýrsluhöfundar geta mælt með og á móti því að úrlausn mála sé falin sjálfstæðri stjórnsýslunefnd.
Helstu sjónarmið sem mæla með því eru eftirfarandi:
- Þegar um innbyggðan hagsmunaárekstur við aðrar starfsskyldur á málefnasviði ráðherra er að ræða,
- þegar þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins kveða á um skyldu til að setja á fót sjálfstætt eða óháð stjórnvald,
- á kærustigi til að tryggja sjálfstæði stofnunar á fyrsta stjórnsýslustigi,
- til að hafa aðgang að sérfræðingum sem stjórnsýslan hefur ella ekki aðgang að,
- til að fyrirbyggja hættu á að ómálefnaleg flokkspólitísk sjónarmið hafi áhrif á úrlausn máls,
- þegar það felur í sér skjótvirkara og ódýrara úrræði fyrir borgarana en að leita til dómstóla,
- þegar um mjög flókið réttarsvið er að ræða þar sem lagaframkvæmd yrði samræmdari og skilvirkari hjá sjálfstæðri stjórnsýslunefnd en hjá dómstólum og loks
- þegar það er nauðsynlegt til að aflétta kærumálum af ráðherra svo hann og ráðuneyti hans geti einbeitt sér að stefnumótun og stjórnun.
Helstu sjónarmið sem mæla gegn því eru:
- Hætta á að rofin séu tengsl við ráðherraábyrgð og eftirlitshlutverk Alþingis með stjórnsýslu slíkra nefnda,
- aukinn kostnaður sem virðist fylgja þessu fyrirkomulagi,
- ófullnægjandi starfsaðstaða, skjalastjórn og upplýsingaöryggi í störfum sumra slíkra nefnda í framkvæmd,
- erfiðleikar við að fá sérfræðinga til starfa,
- spekileki úr ráðuneytum,
- hætta á að samband rofni milli stjórnsýslukæru og annarra stjórnunarheimilda ráðherra,
- freistnivandi fyrir lægra sett stjórnvöld til að komast auðveldlega frá erfiðum málum með því að varpa ábyrgð á afgreiðslu þeirra til sjálfstæðra kærunefnda og loks
- erfiðleikar við að hafa yfirsýn yfir mögulega hagsmunaárekstra og ómálefnaleg sjónarmið sem geta haft áhrif á nefndarmenn slíkra nefnda.
Á grundvelli skýrslunnar mun forsætisráðuneytið í samráði við önnur ráðuneyti gefa út viðmið um hvenær sé rétt að koma á fót sjálfstæðum stjórnsýslunefndum og í kjölfarið leggja mat á starfandi nefndir með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.