Frumvarp til breytinga á lögum um sjúkratryggingar til umsagnar
Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um sjúkratryggingar. Áformaðar breytingar eru meðal annars liður í framkvæmd heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Með frumvarpinu er lagt til að stjórn Sjúkratrygginga Íslands (sjúkratryggingastofnunar) verði lögð niður og ábyrgð forstjóra stofnunarinnar skýrð þannig að hún sé ótvíræð og óskipt gagnvart ráðherra, bæði varðandi rekstur og þjónustu. Einnig eru lagðar til auknar eftirlitsheimildir sem gerir stofnuninni kleift að hafa eftirlit með þjónustuveitendum sem standa utan samninga en veita þjónustu sem sjúklingar fá endurgreidda frá sjúkratryggingum á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin setur.