Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Átakshópur skipaður vegna bráðamóttöku Landspítala

Stjórnskipulag bráðamóttökuverkefnisins - mynd

Skipaður hefur verið átakshópur um lausnir á vanda bráðamóttöku Landspítala. Í hópnum eiga sæti tveir fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og tveir frá Landspítalanum. Vilborg Hauksdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri og til skamms tíma settur ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu mun leiða starf hópsins en einnig verður frá ráðuneytinu sérfræðingur á sviði gagnagreiningar. Frá Landspítalanum verða í hópnum Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra og Jón Magnús Kristjánsson forstöðumaður bráðaþjónustu Landspítala.  Hópurinn er settur á fót í samræmi við sameiginlega ákvörðun ráðuneytisins, Embættis landlæknis og Landspítalans og tekur til starfa strax eftir helgi. Ætlunin er að fram fari víðtækt samráð við starfsfólk Landspítala og aðra aðila eins og þörf krefur.

Átakshópnum til fulltingis verða tveir erlendir ráðgjafar með sérþekkingu á sviði bráðaþjónustu og flæði sjúklinga innan sjúkrahúsa.  Þetta eru Johan Permert, skurðlæknir og prófessor við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Markus Castegren, sérfræðingur á sviði svæfinga- og gjörgæslulækninga við sömu stofnun en hann starfar einnig við sjúkrahúsið í Eskilstuna. Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd af stjórnskipulagi verkefnisins er gert ráð fyrir að Landspítalinn setji á fót vinnuhópa til að sinna skilgreindum verkefnum fyrir átakshópinn eftir þörfum.

Hópurinn á að skila niðurstöðum sínum innan fjögurra vikna með skýrum tillögum um tafarlausar aðgerðir til að leysa bráðan vanda. Markmiðið er að koma í veg fyrir legu sjúklinga á bráðamóttöku vegna flæðivanda og sjá til þess að ábendingum embættis landlæknis varðandi öryggi sjúklinga og gæði þjónustu á bráðamóttökunni verði fylgt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta