Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Miðstöð um ofbeldi gegn börnum stofnuð ​

Ásmundur Einar tilkynnti um opnun miðstöðvarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag. - mynd

UNICEF á Íslandi afhenti í dag Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, 11.430 undirskriftir úr nýlegu ofbeldisvarnarátaki sem bar yfirskriftina ,,Stöðvum feluleikinn” og var ætlað að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Átakinu var hrundið af stað í kjölfar birtingar UNICEF síðastliðið vor á tölum sem gáfu til kynna að af þeim rúmlega 80 þúsund börnum sem búa á Íslandi verði rúmlega þrettán þúsund fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir átján ára aldur. Í ljósi alvarleika málsins kallaði UNICEF á Íslandi eftir vitundarvakningu og aðgerðum.

Undirskriftirnar afhenti Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í nafni Guðrúnar Ögmundsdóttur, fyrrum alþingismanns, sem lést þann 31. desember síðastliðinn en hún var stjórnarkona og síðar stjórnarformaður UNICEF á Íslandi um árabil og mikil baráttukona fyrir réttindum barna og útrýmingu ofbeldis gegn börnum.

Þegar umrædd tölfræði var fyrst birt í maí 2019 boðaði Ásmundur Einar tilteknar aðgerðir til þess að bregðast við þeim. Meðal þeirra var  að setja af stað tilraunaverkefni þar sem áhersla yrði á að greina upplýsingar þvert á kerfi sem benda til óviðunandi aðstæðna barna. Jafnframt tilraunaverkefni með einu eða fleiri sveitarfélögum sem hefði það að markmiði að koma á markvissri mælingu á velferð barna á ákveðnu svæði. Þessum verkefnum var komið á fót í lok júní 2019.

Við afhendingu undirskriftanna í dag tilkynnti Ásmundur Einar formlega um stofnun miðstöðvar sem mun hafa það að markmiði að halda utan um upplýsingar er varða ofbeldi gegn börnum. Miðstöðin mun einnig hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leggja fram tillögur að mótun stefnu og aðgerða í þessum efnum og fylgja þeim eftir. Rekstur miðstöðvarinnar verður í höndum Barnaverndarstofu sem fær aukna fjármuni til þess að geta haldið utan um upplýsingar, rannsóknir, tölfræði og fleira er varðar ofbeldi gegn börnum auk ráðgjafar og tillögugerðar varðandi stefnumótun og aðgerðir. Stjórnvöld á hverjum tíma munu hafa aðgengi að þessum upplýsingum og faglegri ráðgjöf við stefnumótun í málaflokknum, meðal annars með hliðsjón af vinnu við svokallað mælaborð um velferð barna.

Auk þessa hefur Ásmundur Einar ákveðið að fela Barnaverndarstofu að kortleggja og greina þær rannsóknir og upplýsingar sem til eru varðandi ofbeldi gegn börnum. Mun stofan leita til annarra opinberra aðila, frjálsra félagasamtaka, háskólasamfélagsins, barnaverndarnefnda og annarra viðeigandi aðila til að fá sem gleggstar upplýsingar og mynd af stöðu mála svo hægt sé að móta stefnu og aðgerðir með það að markmiði að uppræta ofbeldi gegn börnum á Íslandi.

„Þegar þessar sláandi tölur voru kynntar í vor var strax farið af stað í að móta aðgerðir enda með öllu óásættanleg staða. Við höfum lagt ríka áherslu á að bregðast fljótt og vel við og eru verkefni þessu tengt komin vel á veg. Ég bind vonir við að þær aðgerðir sem við kynntum í dag hjálpi okkur að ná enn betur utan um þessi mál og að þær hafi verndandi áhrif á börn þessa lands,“ segir Ásmundur Einar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta