Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2020 Forsætisráðuneytið

Tekjusagan – uppfærður gagnagrunnur um þróun lífskjara

Fyrir um ári síðan, eða þann 18. janúar 2019, opnuðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vefinn tekjusagan.is. Vefurinn veitir aðgang að gagnagrunni um lífskjör landsmanna sem byggir á ópersónugreinanlegum upplýsingum úr skattframtölum allra einstaklinga á Íslandi frá árinu 1991. Hver sem er getur skoðað þróun ráðstöfunartekna mismunandi hópa, áhrif skatta og bóta auk félagslegs hreyfanleika. 

Vefurinn hefur verið uppfærður og ná upplýsingar nú fram til ársins 2018. Vefurinn er í frekari vinnslu og er ætlunin á næstu mánuðum að bæta við upplýsingum um m.a. eignir, skuldir og menntun.

Tölur fyrir árið 2018 gefa vísbendingu um að vel hafi tekist til við að bæta og jafna kjör:

  • Ráðstöfunartekjur án fjármagnstekna eru að aukast. Fjármagnstekjur minnka hins vegar umtalsvert á milli áranna 2017 og 2018.
  • Ráðstöfunartekjur án fjármagnstekna hafa aldrei verið hærri en á árinu 2018 hjá eldri borgurum, hjónum og sambúðarfólki, einstæðum foreldrum og einstæðum konum. Ráðstöfunartekjur einstæðra karla voru hins vegar hærri fyrir hrun en árið 2018.
  • Bætur frá ríki og sveitarfélögum til einstæðra mæðra hafa ekki áður verið hærri.
  • Ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjármagnstekna aukast hlutfallslega mest hjá neðstu tekjutíundinni en minnka hjá efstu tekjutíundinni.

Til viðbótar hefur Hagstofan birt niðurstöður úr Lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2018 þar sem fram kemur að jöfnuður hafi aukist en Gini-stuðullinn sem mælir tekjujöfnuð landa lækkaði um 1,9 stig á milli áranna 2017 og 2018. Árið 2018 deildi Ísland öðrum minnsta ójöfnuði í heimi með Slóveníu þegar kemur að ráðstöfunartekjum. Fimmtungastuðullinn, sem mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs, lækkaði einnig og fór úr 3,6 árið 2017 niður í 3,2 árið 2018. Þetta gefur til kynna að ójöfnuður hafi minnkað á milli 2017 og 2018.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun ráðstöfunartekna hjóna og sambúðarfólks í öllum tekjutíundum á aldrinum 25-64 ára í krónum árin 2017 og 2018 og breytingu í prósentum á milli áranna.

 

Þróun ráðstöfunartekna hjóna og sambúðarfólks í öllum tekjutíundum á aldrinum 25-64 ára í krónum árin 2017 og 2018 og breytingu í prósentum á milli áranna

Þróun ráðstöfunartekna hjóna og sambúðarfólks í öllum tekjutíundum á aldrinum 25-64 ára í krónum árin 2017 og 2018 og breytingu í prósentum á milli áranna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta