Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrirlestur Lilju í lávarðadeild breska þingsins

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hélt fyrirlestur um jafnréttismál í lávarðadeild breska þingsins á dögunum. Viðburðurinn var skipulagður af hugveitunni Henry Jackson Society og fjallaði ráðherra þar um stöðu kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði.

„Jafnrétti er grundvöllur réttláts samfélags. Jafnrétti milli kynjanna stuðlar að öðru jafnrétti og frelsi í okkar samfélagi. Ég fjallaði um þrjár meginástæður þess að staða kvenna á Íslandi er jafn góð og raun ber vitni en þær tel ég vera gott aðgengi að menntun, jafnt aðgengi barna að leikskólum og lenging fæðingarorlofsins fyrir báða foreldra. Síðan eigum við einnig margar mikilvægar kvenfyrirmyndir, eins og frú Vigdísi Finnbogadóttur,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Árangur Íslands í jafnréttismálum hefur vakið athygli. Ísland situr ellefta árið í röð í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) en þar er metin frammistaða 153 ríkja á sviðum stjórnmála, menntunar, atvinnu og heilbrigðis.

„Staða jafnréttismála á Íslandi er góð í alþjóðlegum samanburði og við höfum náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum. Það er samt að ýmsu að huga, til dæmis á vinnumarkaði þar sem ég tel samfélagslega mikilvægt að við látum af því að skilgreina ákveðnar tegundir starfa sem annað hvort karla- eða kvennastörf. Líkt og John Stuart Mill benti á í sínum skrifum verðum við öll að læra og reiða okkur á sjálfstæða hugsun – hún er farvegur framfara, og þar með velferðar fyrir samfélagið allt,“ segir ráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta