Mistök í svari við fyrirspurn um kjör hjúkrunarfræðinga
Í upphafi árs svaraði heilbrigðisráðuneytið skriflegri fyrirspurn þingmannsins Maríu Hjálmarsdóttur um launamun hjúkrunarfræðinga eftir sjúkrahúsum. Í svari ráðuneytisins voru meðal annars birtar upplýsingar um meðalgrunnlaun og meðalheildarlaun hjúkrunarfræðinga. Mistök urðu við vinnslu svarsins en það var byggt á röngum forsendum og verður unnið að nýju.
Tölurnar í svarinu voru settar fram með launatengdum gjöldum. Slík framsetning gefur ranga mynd af meðalgrunnlaunum og meðalheildarlaunum hjúkrunarfræðinga. Við upplýsingagjöf um laun og kjör eru launatengd gjöld almennt ekki höfð með og tryggt verður að sambærileg mistök gerist ekki aftur. Ráðuneytið biðst velvirðingar á mistökunum.
Nýtt svar verður sent Alþingi síðar í dag, 24. janúar 2020.