Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2020 Dómsmálaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vinnuhópur um tillögur nefndar um saksókn skattalagabrota

  - myndHaraldur Jónasson / Hari
 Nefnd um rannsókn og saksókn skattalagabrota, sem skipuð var sl. vor hefur skilað frá sér skýrslu.. Nefndinni var falið að greina þær kröfur sem leiða af dómum mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við rannsókn og saksókn skattalagabrota og móta afstöðu til þeirra breytinga sem þarf að ráðast í til að mæta þeim kröfum.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Hætt verði að beita álagi við endurákvörðun skatta þegar mál fer í refsimeðferð (sænska leiðin). Þegar um skattskil einstaklinga ræðir verður ekki hvoru tveggja beitt álagi og annarri refsingu vegna sama skattalagabrots. Til þess að svo verði þarf að breyta ákvæðum viðeigandi skattalaga.
  • Aukin verði samvinna þeirra stofnana sem rannsaka brot gegn skattalögum, eftir atvikum með breytingu laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og setningu reglna á þeim grundvelli.
  • Stefnt verði að því að tryggja frekari efnislega og tímalega samþættingu við rannsókn og ákærumeðferð skattalagabrota. Kannað verði nánar hvort því verði náð með sameiningu stofnana.

 

Nú þegar hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum, sem miðar að því að horfið verði tímabundið frá beitingu álags á undandregna skattstofna í þeim málum sem fara í farveg refsimeðferðar. Með því móti er strax brugðist við þeim vanda sem er til staðar í kerfinu meðan unnið verði að varanlegum breytingum á skattrannsóknum á þessu sviði. Eins og fram hefur komið lagði nefndin til að það yrði nánar kannað hvort kostur væri að sameina stofnanir eða samræma betur stofnanafyrirkomulag, samhliða því að reyna að tryggja samfellu við rannsókn skattamála.

í ljósi þessara niðurstaðna hafa dómsmála- og fjármála- og efnahagsráðherra því ákveðið að skipa vinnuhóp til að útfæra tillögur nefndarinnar í formi frumvarps, þar sem lagðar verði til þær breytingar á efnisreglum, stofnanauppbyggingu og samstarfi sem dugi til þess að tvöföldum refsingum verði ekki beitt í þessum málaflokki. Vinnuhópinn skipa:

  • Ása Ólafsdóttir, formaður
  • Hinrika Sandra Ingimundardóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
  • Ingibjörg Helga Helgadóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Vinnuhópnum verður falið að eiga í nánu samráði við hlutaðeigandi stofnanir, þ.e. Skattinn, skattrannsóknarstjóra, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. 

Áætlað er að frumvarp verði tilbúið og lagt fram á haustþingi 2020. Í kjölfarið af því taki við  vinna við að fara með frumvarpið í gegnum Alþingi og undirbúningur hafinn við fyrirhugaðar breytingar innan kerfisins.

Hér má lesa skýrslu starfshópsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta