Fjárframlag til áframhaldandi meðferðar við lifrarbólgu C
Landspítalinn og lyfjafyrirtækið Gilead hafa framlengt samstarfssamning sinn um meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C hér á landi. Gilead mun áfram leggja til án endurgjalds lyfið Harvoni handa þeim sem þurfa á meðferð að halda. Heilbrigðisráðherra hefur lagt Landspítala til tæpar 30 milljónir króna vegna eftirstöðva kostnaðar við verkefnið á síðasta ári og veitt vilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi á þessu ári og því næsta sem svarar tæpum 30 milljónum króna á ári. Fjármunirnir fara í rekstur og utanumhald verkefnisins, birtingu á rannsóknarniðurstöðum og þátttöku í vísindaþingum.
Átak sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu C hér á landi hófst árið 2016 með samstarfi íslenskra heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead. Stjórnvöld lögðu verkefninu til sérstakt fjármagn í þrjú ár, allt að 450 milljónir króna en Gilead lagði til án endurgjalds lyf til meðferðar allra sjúkratryggðra einstaklinga sem smitaðir voru af lifrarbólguveiru C.
Einstakt verkefni á heimsvísu
Meðferðarátakið er einstakt á heimsvísu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá árið 2030. Í því felst 80% fækkun nýrra tilfella og 65% lækkun dánartíðni. Til að ná þessum markmiðum er talið að meðhöndla þurfi 80% smitaðra og að 90% þeirra sem fá lyfjameðferð læknist. Ísland telst nú leiðandi meðal þjóða heims í að ná þessum markmiðum. Auk þess að vera einstakt lýðheilsuátak er liður í samstarfinu við Gilead fólgið í viðamikilli vísindarannsókn þar sem langtímaáhrif átaksins á sjúkdómsbyrði eru greind og sömuleiðis áhrif á notkun og kostnað við heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Mikill árangur
Þremur árum eftir að átakið hófst hafði öllum sem smitaðir voru af lifrarbólgu C verið boðin lyfjameðferð og yfir 95% þeirra sem voru með þekkt smit höfðu þegið lyfjameðferð. Í samantekt Landspítala um árangurinn kemur fram að átakið hafi haft gríðarleg áhrif á algengi sjúkdómsins. Sérstaklega sé áhugavert hve góður árangur hafi náðst meðal áhættuhópa á borð við fólk sem sprautar sig með vímuefnum í æð og fanga.