Auglýst eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra auglýsir eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2020. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land.
Framkvæmdasjóður aldraðra starfar samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 og reglugerð nr. 468/2014. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til heilbrigðisráðherra um úthlutun úr honum. Vísað er til reglugerðarinnar varðandi upplýsingar um þau verkefni sem heimilt er að veita framlög til, afgreiðslu umsókna og reglur varðandi framlög.
Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að sækja um rafrænt.
- Nánari upplýsingar ásamt leiðbeiningum vegna umsóknar
- Umsóknareyðublöð á https://minarsidur.stjr.is.
Mikilvægt er að vanda til umsókna og skila nauðsynlegum upplýsingum og fylgiskjölum innan tilskilins frests. Ekki verður tekið við gögnum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.
Umsóknum ber að skila í síðasta lagi fyrir kl. 16:00 mánudaginn 24. febrúar 2020.
Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra