Upplýsingafundur þjóðaröryggisráðs
Í dag var haldinn upplýsingafundur í þjóðaröryggisráði í tilefni af yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að kórónaveirufaraldurinn sem nú geisar sé alþjóðleg heilbrigðisógn. Stofnunin mælir hins vegar hvorki með almennu ferðabanni né hindrunum á viðskiptum milli landa.
Gestir fundarins voru Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.
Á fundinum var farið yfir stöðu mála og viðbúnað sóttvarnalæknis í samvinnu við almannavarnir vegna heimsfaraldursins. Verið er að yfirfara allar viðbragðsáætlanir og samræma viðbrögð viðbragðsaðila í forvarnaskyni.