Úttekt á starfsemi aðalræðisskrifstofunnar í Winnipeg
Niðurstaða úttektarinnar er sú að íslensk stjórnvöld skuli áfram reka aðalræðisskrifstofu í Winnipeg. Þá eru lagðar fram tillögur um markvissari starfsemi ræðisskrifstofunnar. Meðal annars er lagt til að aðalræðismaður verði jafnframt sérstakur erindreki gagnvart fólki af íslenskum uppruna í Norður-Ameríku, að ekki verði skilyrt að aðalræðismaður hafi áður starfað í utanríkisþjónustunni og að leitað verði aukinnar hagræðingar í rekstri aðalræðisskrifstofunnar, t.d. í húsnæði og starfsmannahaldi. Utanríkisráðherra mun hafa tillögurnar til hliðsjónar við stefnumótun um fyrirsvar Íslands í Norður-Ameríku.
Aðalræðisskrifstofan var upphaflega sett á fót um síðustu aldamót til að styðja við hátíðarhöld í tilefni af þúsund árum frá landafundum norrænna manna í N-Ameríku. Helstu verkefni skrifstofunnar hafa verið stuðningur við viðhald þjóðræknis- og menningartengsla Íslendinga við fólk af íslenskum uppruna í Norður-Ameríku en fjölmennustu samfélögin eru enn í Manitoba-fylki í Kanada.