Ríkisstjórnin styrkir útgáfu íslenskra einsöngslaga
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita eina milljón króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til tónverkamiðstöðvarinnar Ísalaga sem stendur að útgáfu íslenskra einsöngslaga.
Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins hefur Jón Kristinn Cortez, forsvarsmaður Ísalaga, staðið fyrir heildarútgáfu einsöngslaga. Á árunum 2017 og 2018 voru gefin út einsöngslög tónskáldanna Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og Jóns Ásgeirssonar. Hinn 1. desember 2018 var lokið við átta binda útgáfu íslenskra einsöngslaga með 289 sönglögum eftir 66 tónskáld undir heitinu „Íslensk einsöngslög 1-8, íslensk einsöngslög í eitt hundrað ár.“
Markmið útgáfunnar er að bjarga frá glötun þessum þætti menningararfs Íslendinga. Tónverkamiðstöðin stefnir að frekari útgáfum á tónverkum íslenskra tónskálda meðal annars með verkum Gunnars Reynis Sveinssonar og Jóns Leifs.