Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður stofnaður
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, stofnuðu í dag Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóð og undirrituðu úthlutunarreglur sjóðsins með formlegum hætti.
Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Sjóðurinn mun, meðal annars, styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, auk þess að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri. Sjóðurinn er settur á laggirnar í samræmi við aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og sameiginlegt átak ráðherranna um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Þessi sjóður er mikilvægur áfangi í átaki okkar heilbrigðisráðherra um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Það sem gerir þetta kleift er það góða starf sem unnið hefur verið á síðustu misserum og hefur verið leitt af okkar fremstu sérfræðingum á þessu sviði. Á sama tíma er stofnun þessa sjóðs stórt skref í þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.“
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra:
„Sýkalyfjaónæmi er alþjóðlegt vandamál og ein af helstu heilbrigðisógnum heims að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það er mikið í húfi að sporna við útbreiðslu sýkalyfjaónæmis og í því sambandi er ábyrg notkun sýklalyfja og virkt eftirlit með notkun þeirra lykilatriði. Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er meðvitað um þetta og mikilvægt að við höldum öll vöku okkar.“
Í sjóðnum eru 30 milljónir fyrir árið 2020, sem kemur með jöfnum framlögum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Fjármögnun sjóðsins er tryggð til næstu þriggja ára. Sjóðsstjórn verður skipuð fljótlega.
Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis
Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum sem gerir meðferð ýmissa sýkinga erfiða, kostnaðarsama og í sumum tilvikum ómögulega. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins er útbreiðsla sýklalyfjaónæmis ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum.
Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nágrannaríkjunum. Mikilvægt er að halda áfram að stemma stigu við frekari útbreiðslu þess.
Sjóðurinn mun:
- Styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi.
- Fjármagna tilteknar skimanir fyrir ónæmum sýklum en einungis verða fjármagnaðar skimanir sem eru umfram lögbundnar skimanir, t.d. tilteknar skimanir í matvælum, sauðfé, hrossum, gæludýrum, sníkjudýrum og umhverfi.
- Fjármagna umframkostnað vegna rannsókna í almannaþágu í því skyni að rekja uppruna sýkla sem dreifast á milli manna og dýra þegar upp koma hrinur, hópsýkingar eða faraldrar