Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Kynferðisleg friðhelgi til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi

Tillögur forsætisráðherra um vernd kynferðislegrar friðhelgi voru til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi á föstudag. 

Stýrihópi forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi var falið að móta stefnu gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Er það í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hópurinn fékk Maríu Rún Bjarnadóttur, lögfræðing, til að vinna greinargerð um stafrænt kynferðisofbeldi og koma með tillögur til úrbóta.  Í greinargerðinni kýs María að nota hugtakið „kynferðisleg friðhelgi“ og færir rök fyrir því að það sé víðtækara en „stafrænt kynferðisofbeldi“ og nái þar af leiðandi utan um margþættari háttsemi, auk þess að vera tæknihlutlaust.

Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að gildandi löggjöf veiti ekki kynferðislegri friðhelgi einstaklinga fullnægjandi vernd, sem birtist meðal annars í óskýrri dómaframkvæmd og neikvæðri upplifun brotaþola. Því sé þörf á heildstæðri löggjöf, sem verði fylgt eftir með stefnumótandi aðgerðum sem lúti að forvörnum og fræðslu, úrbótum á meðferð mála innan réttarvörslukerfisins og stuðningi við þolendur brota.

Dómsmálaráðherra mun, með aðkomu refsiréttarnefndar, taka tillögurnar til skoðunar og hefja endurskoðun á löggjöf og lagaframkvæmd. Nefnd forsætisráðherra um mótun forvarnastefnu hefur þegar fléttað tillögur um forvarnamál inn í sína vinnu. Þá mun félagsmálaráðuneytið taka tillögur um bætta þjónustu við þolendur til skoðunar í tengslum við framkvæmd áætlunar um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Greinargerð Maríu Rúnar Bjarnadóttur; Kynferðisleg friðhelgi, umfjöllun um réttarvernd og ábendingar til úrbóta.

 

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta