Loftslagsmót haldið í mars: Fyrirtæki og stofnanir ræða grænar lausnir
3. mars næstkomandi hittast fyrirtæki og stofnanir á loftslagsmóti og ræða grænar lausnir í rekstri og starfsemi.
Mótið fer þannig fram að þáttakendur skrá sig, setja fram áskoranir og óska eftir fjölbreyttum lausnum frá fyrirtækjum eða sprotum, eða skrá sig með þær lausnir sem viðkomandi fyrirtæki býður. Í framhaldinu gefst svo öllum tækifæri til að bóka stutta fundi með öðrum aðilum og ræða hverskyns lausnir sem styðja við loftslags- og umhverfisvænni rekstur. Dæmi um umfjöllunarefni geta verið betri aðferðir við flokkun, lágmörkun úrgangs, rafrænt bókhald, umhverfisstjórnun og ráðgjöf um fyrstu skref í átt að umhverfisvænni rekstri.
Mótið er haldið að fyrirmynd Nýsköpunarmóts sem fram fór sl. haust og heppnaðist einstaklega vel. Þar voru haldnir 240 fundir með 25 opinberum stofnunum og 71 fyrirtæki. Nýsköpunarmótið verður haldið öðru sinni í lok september.
Hverjir ættu að skrá sig og taka þátt?
• Fyrirtæki/stofnanir sem leita lausna við áskorunum á sviði umhverfis- og loftslagsmála
• Fyrirtæki/stofnanir með lausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála
• Fyrirtæki/stofnanir í vöruþróun
- Skráning á loftslagsmót 2020 – haldið á Grand hótel 3. mars frá 9-12
- Umfjöllun um loftslagsmót á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
Viðburðurinn er haldinn af Grænvangi og Nýsköpunarmiðstöð, í samstarfi við Festu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.