Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

Siðfræðistofnun skilar framvinduskýrslu um tillögur starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu ​

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, framvinduskýrslu um innleiðingu tillagna starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Í skýrslunni er lagt mat á árangur og viðleitni stjórnvalda til þess að mæta tillögum starfshópsins. 

Siðfræðistofnun telur tillögur starfshópsins vel ígrundaðar og rökstuddar. Stjórnvöld hafi nú þegar tekið skref að markmiðum sem heyra undir fimm af þeim átta meginsviðum sem skilgreind eru í skýrslu starfshópsins. Þá er það mat Siðfræðistofnunar að frumvörp forsætisráðherra í málaflokknum feli í sér veigamiklar umbætur verði þau öll að lögum. 

Þegar hefur eitt frumvarp forsætisráðherra orðið að lögum, en breytingar á upplýsingalögum sem fólu í sér útvíkkun gildissviðs laganna og betra aðgengi almennings að upplýsingum tóku gildi um mitt síðasta ár. Að auki hefur forsætisráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um vernd uppljóstrara og frumvarpi til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands og eru þau nú í meðförum þingsins.

Þá bendir stofnunin á leiðir til að uppfylla önnur tilmæli starfshópsins, svo sem að gera áætlanir um endurskoðun og umgjörð siðareglna, auka símenntun á sviði opinberra heilinda og efla gagnrýna umræðu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Undanfarið ár höfum við stigið mikilvæg skref til að auka gagnsæi og upplýsingagjöf. Alþingi samþykkti frumvarp mitt um breytingar á upplýsingalögum og um þessar mundir eru tvö stór framfaramál til umfjöllunar á þingi; um vernd uppljóstrara og varnir gegn hagsmunaárekstrum ráðherra og æðstu embættismanna. Framundan eru svo stór verkefni sem ég hef væntingar um að verði lokið á kjörtímabilinu, meðal annars endurskoðun siðareglna og vinna við heilindaramma fyrir stjórnsýsluna.“

Starfshópur forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu skilaði skýrslu sinni í september 2018. Í skýrslunni voru settar fram tillögur að aðgerðum sem skipt var í átta meginsvið og 25 afmarkaðar tillögur. Í desember 2018 gerði forsætisráðuneytið samning við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands um að stofnunin yrði stjórnvöldum til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum og ynni með stjórnvöldum að eftirfylgni og innleiðingu tillagna starfshópsins.

Framvinduskýrsla Siðfræðistofnunar um innleiðingu tillagna starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

Skýrsla starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara.

Frumvarp til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

Lög um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum (útvíkkun gildissviðs o.fl.)

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta