Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til laga um eignarráð og nýtingu fasteigna í samráðsgátt

Frumvarp forsætisráðherra um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Markmið frumvarpsins er að auka gagnsæi og treysta yfirsýn og stýritæki stjórnvalda, í þeim tilgangi að nýting lands sé í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Í þessu skyni eru lagðar til breytingar á eftirtöldum fjórum lagabálkum: lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966; þinglýsingalögum nr. 39/1978; lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001; og jarðalögum nr. 81/2004.

Efni frumvarpsins er í meginatriðum eftirfarandi:

Í fyrsta lagi eru undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum aðila sem búsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skýrðar nánar, en ákvæði núgildandi laga um það efni eru almenn og óljós.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að kaupverð eignar skuli koma fram í þinglýstu afsali, en kaupverð er meðal annars forsenda ákvörðunar fasteignamats.

Í þriðja lagi er lagt til að Landeignaskrá á vegum Þjóðskrár Íslands verði vettvangur fyrir samræmda opinbera skráningu á landupplýsingum.

Í fjórða lagi verði sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni gert hærra undir höfði í markmiðsákvæði jarðalaga. Sett verði inn skilyrði um samþykki fyrir aðilaskiptum að landi í skilgreindum tilfellum. Á það meðal annars við ef kaupandi lögbýlis á fyrir fleiri lögbýli sem eru samanlagt 50 hektarar eða meira að stærð, ef fasteign er 350 hektarar eða stærri og ef kaupandi og tengdir aðilar eiga fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð. Í sömu tilfellum þarf einnig að afla samþykkis fyrir breytingu á yfirráðum yfir lögaðila sem er eigandi lands, svo sem ef eignarhlutur í fyrirtæki skiptir um hendur að hluta eða í heild. Þá er gert ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu tiltekinna lögaðila um eignarhald þeirra. Loks eru lögð til skýrari skilyrði fyrir afskráningu lögbýla og lausn lands úr landbúnaðarnotum.

Frumvarpið byggir á viðamikilli greiningarvinnu og á fyrri skýrslum stjórnvalda um álitaefni tengd nýtingu lands. Til ráðgjafar við samningu frumvarpsins voru Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar Háskóla Íslands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Á grunni þeirrar greiningar sem ég hef látið vinna þykir mér ljóst að verulega skortir á yfirsýn stjórnvalda yfir nýtingu og eignarráð yfir landi og öðrum fasteignum. Að einhverju leyti má rekja þessa stöðu til alþjóðlegrar þróunar, þar sem pólitísk umræða hefur verið af skornum skammti á sama tíma og eftirspurn eftir fasteignum hefur aukist og verð hækkað. Skýringa er einnig að leita í þeirri staðreynd að málaflokkurinn heyrir undir mörg ráðuneyti. Verði þetta frumvarp að lögum nást fram markmið um stórbætta yfirsýn og samhæfingu.“

„Með frumvarpinu er stjórnvöldum sköpuð betri staða til að stýra þróun í málaflokknum, í samræmi við skilgreind markmið um sjálfbæra landnýtingu í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Skyldur okkar eru ekki aðeins við samfélag dagsins í dag heldur einnig gagnvart komandi kynslóðum.“

Hagsmunaaðilar og almenningur geta sent inn umsögn og athugasemdir við frumvarpið og þurfa þær að berast í síðasta lagi 23. febrúar nk.

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna, í samráðsgátt stjórnvalda. 

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta