Landspítali, stærsta stofnun landsins, kominn með jafnlaunavottun
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85, í kjölfar úttektar Versa vottunar ehf. Í janúar síðastliðnum hlaut Sjúkrahúsið á Akureyri einnig jafnlaunavottun og nýverið bættist Lyfjastofnun í hóp þeirra stofnana heilbrigðisráðuneytisins sem hafa innleitt jafnlaunakerfi í samræmi við jafnlaunastaðalinn og hlotið jafnlaunavottun.
Í tilkynningu á vef Landspítala kemur fram að markvisst hafi verið unnið að uppbyggingu jafnlaunakerfis Landspítala frá árinu 2018 þegar stýrihópur um verkefnið hóf störf ásamt sérstökum verkefnastjóra jafnlaunavottunar. „Við erum mjög stolt af því að hafa hlotið jafnlaunavottun, enda erum við flókin stofnun með um 6.000 starfsmenn“ er haft eftir Páli Matthíassyni, forstjóri spítalans í tilkynningu: „Um leið gerum við okkur grein fyrir að jafnlaunaverkefninu lýkur ekki þar, heldur höfum við gengist inn á að fylgja staðli sem kveður á um stöðugar umbætur á jafnlaunakerfinu. Okkar markmið með jafnlaunastefnunni er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsfólks til fulls án þess að kynbundin mismunun eigi sér stað."
Auk Landspítala, Lyfjastofnunar og Sjúkrahússins á Akureyri hefur Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hlotið jafnlaunavottun. Jafnlaunavottun var leidd í lög árið 2017 með það að meginmarkmiði að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
- Listi yfir stofnanir og fyrirtæki sem hlotið hafa jafnlaunavottun á vef Jafnréttisstofu
- Upplýsingar um jafnlaunavottun á vef Stjórnarráðsins