Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2020

Gagnrýndi ESB-tolla á íslenskan fisk hjá WTO

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands hjá WTO - myndUtanríkisráðuneytið

Fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) gagnrýndi á fundi í Genf í dag að Evrópusambandsríkin legðu tolla á íslenskan fisk á meðan önnur ríki fengju tollfrjálsan aðgang fyrir sínar sjávarafurðir. 

Í dag fór fram reglubundin endurskoðun á viðskiptastefnu Evrópusambandsins á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Genf. Í ræðu sem Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands hjá WTO flutti á fundinum undirstrikaði hann náið og víðfeðmt viðskiptasamband Íslands og Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og fagnaði samstarfi á mörgum sviðum, m.a. hvað varðar efnahagslega valdeflingu kvenna. Í þessu ljósi skytu hins vegar skökku við tollar sem ESB leggur á fjölda tegunda íslenskra sjávarafurða, ekki síst vegna þess að nokkur ríki fengju tollfrjálsan aðgang fyrir sínar sjávarafurðir á Evrópumarkað. Harald benti jafnframt á að íslenskur sjávarútvegur væri vistvænn og sjálfbær og þar væru engir ríkistyrkir til staðar sem ýttu undir ofveiði. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur tekið þessi mál upp reglulega á fundum með ráðamönnum Evrópusambandsins og aðildarríkjum þess. Um þessar mundir stendur íslenska utanríkisþjónustan fyrir upplýsingarherferð gagnvart aðildarríkjum ESB með það að markmiði að koma á viðræðum um tollfrelsi á sjávarafurðir frá Íslandi til ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta