Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Íslands og Lettlands funduðu í Ríga

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands. - myndUtanríkisráðuneyti Lettlands / Laura Celmiņa

Öryggis- og alþjóðamál, tvíhliða samskipti og málefni norðurslóða voru efst á baugi á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, í Ríga í dag. Utanríkisráðherra átti einnig fundi með forseta Lettlands og varnarmálaráðherra og heimsótti lettneska þjóðþingið. 

Guðlaugur Þór heimsækir Eystrasaltsríkin Lettland og Eistland þessa vikuna. Samband Íslands við þessi ríki er bæði náið og gott, ekki síst innan vébanda samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) en einnig á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og annarra alþjóðastofnana.

Þeir Guðlaugur Þór og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, áttu fund í morgun þar sem tvíhliða samskipti, Evrópumál og málefni norðurslóða voru á meðal umræðuefna. Efst á baugi voru hins vegar alþjóða- og öryggismál, sérstaklega samstarfið á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Íslensk stjórnvöld stefna að því að senda borgaralegan sérfræðing á sviði upplýsingamála til starfa hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi á næstu mánuðum. Fyrir eru íslenskir sérfræðingar í sambærilegum stöðum hjá fjölþjóðaliðinu í Eistlandi og Litáen.

 „Eystrasaltsríkin eru á meðal okkar nánustu vinaþjóða og hér í Ríga hef ég verið sérstaklega snortinn yfir þeim hlýhug sem ég hef alls staðar fundið vegna þess að Ísland gekk fram fyrir skjöldu og viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrir tæpum þrjátíu árum. Því hafa Lettar ekki gleymt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. „Ísland og Lettland deila hagsmunum um margt og ég hlakka til að auka samstarf ríkjanna enn frekar, meðal annars á sviði öryggismála. Lettar hafa sérhæft sig í upplýsingamálum þeim tengdum og í Ríga er starfrækt öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins á því sviði. Við getum því lært margt af þeim um leið og okkar fólk í fjölþjóðaliðinu leggur sitt af mörkum.“

Að loknum blaðamannafundi lögðu utanríkisráðherrarnir blómsveig að Frelsisminnismerkinu í Ríga en það var reist til minnis um þá sem létust í lettneska frelsisstríðinu 1918-1920 og er táknrænt fyrir sjálfstæði og fullveldi landsins.

Guðlaugur Þór átti jafnframt fundi með Artis Pabriks, varnarmálaráðherra Lettlands, og Egils Levits, forseta landsins. Þá átti hann hádegisverðarfund með Stefan Eriksson, framkvæmdastjóra upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Ríga og einnig heimsótti hann lettneska þjóðþingið Saeima þar sem Ināra Mūrniece þingforseti tók á móti honum, auk þingmanna úr vináttuhópi Lettlands og Íslands.

Í gærkvöld flutti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrirlestur um alþjóðamál og norðurslóðir í Stradins-háskólanum og svaraði spurningum nemenda.

Guðlaugur Þór heldur til Eistlands í kvöld og fundar hann á morgun með ráðamönnum í Tallinn.

  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Egils Levits, forseti Lettlands - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands lögðu blómsveig að Frelsisminnismerkinu í Ríga.. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands á blaðamannafundi í dag. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Egils Levits, forseti Lettlands - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta