Netvarnir ofarlega á baugi í Eistlandsheimsókn utanríkisráðherra
Öryggis- og alþjóðamál, tvíhliða samskipti, norðurslóðamál og þróunarsamvinna voru á meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, í Tallinn í dag. Guðlaugur Þór átti fundi með fleiri eistneskum ráðamönnum og heimsótti öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins á sviði netvarna.
Guðlaugur Þór er í þriggja daga heimsókn í Lettlandi og Eistlandi sem lýkur formlega í kvöld. Dagurinn hófst með fundi þeirra Reinsalu í eistnesku höfuðborginni Tallinn en þetta er í fyrsta sinn sem ráðherrarnir hittast. Öryggis- og alþjóðamál bar hátt á fundinum, ekki síst samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og framlag Eistlands til netöryggismála. Öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins um netvarnir er í Tallinn og kynnti Guðlaugur Þór sér starfsemi þess síðdegis.
„Eistland er í fararbroddi Evrópuríkja þegar kemur að netöryggismálum og engin tilviljun að öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins á því sviði sé hér í Tallinn. Það var mjög áhugavert að skoða starfsemi þess enda eru netvarnir brýnt öryggismál fyrir öll ríki, Ísland þar með talið. Eistar sýna með framlagi sínu hvernig smærri þjóðir geta lagt mikið af mörkum með sérþekkingu á tilteknum sviðum og af þeim getum við lært,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.
Ráðherrarnir ræddu ýmis önnur mál á fundi sínum, þar á meðal samstarfið á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) en Eistar tóku við formennskunni þar af Íslendingum um áramótin. Þeir Guðlaugur Þór og Reinsalu voru sammála um að efla þá góðu samvinnu sem ríkin hafa ávallt haft með sér, til dæmis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en Eistland situr um þessar mundir í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þróunarsamvinna var jafnframt til umræðu, Evrópumál og málefni norðurslóða. Eistar hafa lýst yfir áhuga á áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu þar sem Ísland fer nú með formennsku. Síðast en ekki síst voru tvíhliða samskipti ríkjanna á dagskránni, bæði á menningar- og viðskiptasviði og má í því sambandi nefna að Eistar eru framarlega á sviði rafrænna viðskipta.
„Heimsóknin til Lettlands og Eistlands hefur sannfært mig enn betur um hvað samband okkar við Eystrasaltsríkin er mikilvægt og hve miklu skiptir að hlúa að því enn frekar. Ísland nýtur meiri velvildar hér en fólk gerir sér almennt grein fyrir, sérstaklega vegna viðurkenningar okkar á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrir hartnær þrjátíu árum, og þessi gagnkvæma velvild er grunnurinn að því að styrkja sambandið enn frekar,“ segir Guðlaugur Þór.
Auk fundarins með Reinsalu og heimsóknarinnar í öndvegissetrið átti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hádegisverðarfund með utanríkismálanefnd eistneska þingsins og fundi með Kristjan Prikk, ráðuneytisstjóra eistneska varnarmálaráðuneytisins, og Kaimar Karu, ráðherra utanríkisviðskipta og upplýsingatækni. Þá flutti Guðlaugur Þór erindi um alþjóðamál og norðurslóðir í Estonian School of Diplomacy og svaraði spurningum nemenda.